Vorhlaup VMA fimmtudaginn 12. apríl
Vorhlaup VMA verður haldið í fjórða skipti nk. fimmtudag, 12. apríl. Hlaupið hefst við VMA og því lýkur sömuleiðis þar. Þetta þýðir að hlaupahringurinn verður nú í fyrsta skipti í Vorhlaupi VMA í nágrenni skólans. Ræsing í hlaupið verður kl. 17.30 og verða, eins og verið hefur, í boði 5 km og 10 km hlaupaleiðir. Að loknu hlaupi verður verðlaunaafhending í VMA.
Vegalengdir og flokkar
Í 5 km hlaupinu verður keppt í þremur flokkum: opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km hlaupinu verður keppt í tveimur flokkum: opnum flokki og framhaldsskólaflokki.
Leiðarlýsing 5 og 10 km (10 km hlauparar hlaupa tvo hringi)
Til stóð að tvær ólíkar hlaupaleiðir yrðu í boði - þ.e. önnur fyrir 10 km og hin fyrir 5 km hlauparana og var búið að mæla báðar vegalengdirnar nákvæmlega. Nú hefur komið í ljós að verktakar hafa nú grafið í sundur veginn suður í Kjarna - þangað sem leið 10 km hlauparanna átti að liggja. Af þessum sökum verður 10 km hlaupaleiðin einfaldlega tveir 5 km hringir.
Hlaupaleið 5 og 10 km verður því sem hér segir: Hlaupið er frá austurinngangi Verkmenntaskólans á Akureyri. Hlaupið er til suðurs, yfir Hringteig, upp á gangstéttina og eftir Hringteigi að Mýrarvegi. Hlaupið er yfir Mýrarveg og síðan eftir gangstétt við Mýrarveg þar til beygt er til hægri upp eftir Miðhúsabraut. Fylgt er breiðum göngustíg upp Miðhúsabraut, eftir aflíðandi beygju niður Dalsbraut. Dalsbraut er fylgt niður að Skógarlundi en þar er farið yfir Dalsbraut og gangstétt við Skógarlund fylgt út að Þingvallarstræti. Við Þingvallarstræti er beygt til vinstri eftir göngustíg en síðan aftur beygt til vinstri suður göngustíg sem liggur framhjá MS og síðan meðfram Miðhúsabraut. Göngustígnum fylgt að hringtorgi við Bónus, þar er farið yfir Miðhúsabraut og hlaupið eftir gangstétt við Kjarnagötu að afleggjaranum að Golfvellinum. Þar er snúið við, hlaupið eftir Kjarnagötu, yfir Miðhúsabraut, yfir Dalsbraut, austur eftir gangstétt meðfram Miðhúsabraut, í norður eftir Mýrarvegi og sömu leið heim að VMA eftir Hringteigi.
Hér er myndband sem sýnir 5 og 10 km leiðina.
Verðlaun
Verðlaunapeningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla og kvenna auk fjölda útdráttavinninga. Verðlaunaafhending fer fram í Gryfjunni í VMA og hefst kl. 18:30.
Skráning
Forskráning fer fram á netskraning.is og verður hún opin til kl. 17:00 nk. fimmtudag. Sérskráning verður í boði fyrir framhaldsskólanema í VMA og MA til kl. 13:00 á fimmtudag. Hægt verður að skrá sig á fimmtudaginn í anddyri austurinngangs VMA kl. 15:30-17:00 gegn hærra gjaldi.
Verð í forskráningu:
- 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 1500 kr fyrir hlaupara í opnum flokki
Verð á keppnisdegi:
- 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 2000 kr fyrir hlaupara í opnum flokki
Afhending gagna - frítt í sund fyrir hlaupara
Mælst er til þess að hlauparar forskrái sig á netskraning.is eða á skrifstofum VMA og MA en afhending gagna og síðustu skráningar fara fram í anddyri austurinngangs VMA kl. 15:30-17:00 á fimmtudaginn. Þátttakendur í hlaupinu fá frítt í sund í Sundlaug Akureyrar að hlaupi loknu gegn framvísun hlaupanúmers.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um hlaupið og framkvæmd þess veitir Anna Berglind Pálmadóttir á netfanginu annaberglind@vma.is
Hlaupið er öllum opið!
Vorhlaup VMA hefur verið skemmtilegur viðburður í skólastarfinu en vert er að undirstrika að hlaupið er fyrir alla, jafnt framhaldsskólanemendur á Akureyri og aðra, unga sem aldna, sem langar að spretta úr spori.