Vörubílsstjóri í húsgagnasmíði
Jenný Friðjónsdóttir, 35 ára Akureyringur, er á fjórðu önn í húsgagnasmíði. Hún hefur ekki alltaf farið troðnar slóðir því í þrettán ár keyrði hún vörubíl. Hún segist kunna vel við námið í húsgagnasmíðinni en áhyggjuefni sé hversu erfitt sé að fá námssamning. Það geti sett umtalsvert strik í reikninginn.
Jenný tók á sínum tíma eina önn í mynd- og handmennt í VMA, á þeim tíma fór sú kennsla fram í gamla Hússtjórnarskólanum við Þórunnarstræti. Síðan lá leiðin í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og að því námi loknu tóku við barneignir og hið daglega brauðstrit. Frekari skólaganga varð því að víkja um stund. En síðan kom að því að Jenný ákvað að stíga skrefið og innritaði sig á Háskólabrú Keilis og stundaði það nám hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar í hálfa aðra önn. Hún rifjar upp að erfiðast hafi verið að koma sér af stað, ekki síst vegna þess að stærðfræðin hafi lengi verið sér erfið. En með góðri kennslu og ástundum hafi þetta allt gengið vel og því hafi ekki annað komið til greina en að halda áfram að lokinni háskólabrúnni og húsgagnasmíðin hafi orðið fyrir valinu, enda hafi hún lengi haft ánægju af því að dunda sér við smíðar. Þar sem Jenný hefur lokið Háskólabrú Keilis þarf hún fyrst og fremst að taka verklega áfanga í húsgagnasmíðinni í VMA.
Jenný segir að hún hafi ákveðið að taka skrefið og drífa sig í skóla þegar börnin hafi verið orðin stálpuð. „Börnin mín spyrja mig stundum að því af hverju ég sé í skóla og ég segi þeim að ástæðan sé sú að með því sé ég að búa í haginn fyrir okkur í framtíðinni,“ segir Jenný.
„Strákarnir hérna eru ekki farnir að kalla mig ömmu, en sjálf á ég börn á svipuðum aldri og nemendurnir hér,“ segir Jenný og brosir. „Ég ætlaði mér raunar aldrei að verða smiður en ég hef aldrei verið þekkt fyrir að elta einhverja tísku.“
Jenný segir að illa gangi að komast í verknám, en áskilið er 72ja vikna verknám á vinnustað að loknu fjórum önnum í skólanum. Hún segist hafa áhuga á að mennta sig í bólstrun en slíkt nám sé ekki í boði hér. Fara þyrfti til Danmerkur til þess að læra bólstrun og ekki sé auðvelt að rífa sig upp með fjölskyldu til þess að fara út fyrir landssteinana í nám.
Þessa dagana eru Jenný og samnemendur hennar að smíða innréttingar í sumarbústaðinn sem nemendur í byggingadeildinni hafa verið að smíða í vetur. Hér er Kristján Davíðsson kennari að gefa Jennýju góð ráð.