Yfirlýsing frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í kjölfar komu frambjóðenda Miðflokksins í VMA
Yfirlýsing frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í kjölfar komu frambjóðenda Miðflokksins í VMA
Í gær, 20. nóvember, var haldinn fjölmennur framboðsfundur í VMA þar sem fulltrúar allra flokka sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi fyrir alþingskosningarnar 30. nóvember n.k. fengu tækfæri til að kynna sig og svara spurningum úr sal. Á heimasíðu VMA er frétt um fundinn.
Framboðsfundurinn var skipulagður af nemendum, fyrir nemendur og á þeirra forsendum og er jafnframt hluti af verkefninu #Égkýs, sem í stórum dráttum felst í því að efla lýðræðisvitund framhaldsskólanema og hvetja ungt fólk til kosningaþátttöku. Verkefninu lauk í dag með svokölluðum Skuggakosningum í framhaldsskólum landsins.
Á fundinum í VMA báru nemendur upp fjölbreyttar spurningar til framboðanna, m.a. var tveimur spurningum beint til frambjóðanda Miðflokksins, Ingu Dísar Sigurðardóttur. Önnur spurningin var eitthvað á þessa leið: Er það rétt að þingmenn Miðflokksins hafi setið á bar og samtal þeirra tekið upp þar sem þeir töluðu illa um konur og fatlað fólk? Hin spurningin var efnislega þessi: Ég er með spurningu til Miðflokksins. Miðflokkurinn talar mikið um tollamál og álögur í landbúnaði. Var það ekki ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem stóð fyrir síðustu tollalækkun á innfluttum matvælum/landbúnaðarvörum? Þessum tveimur spurningum svaraði Inga Dís mjög heiðarlega. Fyrri spurningunni svaraði hún játandi en spurningunni um tollamálin sagðist hún bara ekki geta svarað.
Fundurinn, sem var haldinn kl. 10-11 í gærmorgun, var nemendum til sóma og fengu þeir mikið hrós frá mörgum fulltrúum flokkanna á fundinum fyrir gott fyrirkomulag hans og málefnalega umræðu.
Klukkan rúmlega tvö í gær hafði starfsmaður VMA samband við skólameistara og spurði hvort Miðflokkurinn hefði leyfi til að vera í Gryfjunni, sem er mat- og samkomusalur nemenda. Skólameistari hafði ekki fengið fyrirspurn frá Miðflokknum um það og fór því fram í Gryfju til að ræða við þá þrjá frambjóðendur flokksins í Norðausturkjördæmi sem þar voru, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, oddvita flokksins í kjördæminu, Þorgrím Sigmundsson, sem skipar 2. sæti listans, og Ágústu Ágústdóttur, sem skipar 3. sæti listans. Er skólameistari kom í Gryfjuna var Sigmundur Davíð að ræða við nokkra unga nemendur skólans. Skólameistari kynnti sig þá fyrir Þorgrími og tjáði honum að fulltrúum stjórnmálaflokkanna væri heimilt að koma í skólann enda væru þeir einungis í Gryfjunni. Hins vegar væri reglan sú að stjórnmálaflokkar hafi samband fyrirfram og fái formlegt leyfi áður en komið er í skólann. Það hefði ekki verið gert í þessu tilfelli. Jafnframt var Þorgrími tjáð að ekki væri heimilt að fara um skólann og inn í kennslustofur.
Þorgrímur og Ágústa tjáðu þá skólameistara þá skoðun sína að nemendur VMA hefðu verið dónalegir og ómálefnalegir á framboðsfundinum um morguninn. Ingu Dís, fulltrúa Miðflokksins á fundinum, hefði liðið illa eftir fundinn og þá sérstaklega yfir þeim tveimur spurningum sem nemendur í salnum beindu til hennar. Vegna þess væru þau þrjú komin í skólann til að leiðrétta og svara nemendum spurningunni um tollamálin.
Skólameistari útskýrði hvernig framboðsfundurinn hefði verið skipulagður, hann hefði að öllu leyti verið í umsjón og undirbúinn af nemendum og skólinn ritskoðaði ekki fyrirspurnir nemenda, enda hefði hann ekki til þess heimild á nokkurn hátt. Nemendur hafi einfaldlega spurt um það sem þeim hafi legið á hjarta og óskað eftir að fá svör við. Þorgrímur fullyrti að spurningin um tollamálin kæmi beint frá föður nemandans sem spurði og nafgreindi Þorgrímur föðurinn.
Þegar þarna var komið sögu bauð skólameistari nemendum sem þarna voru að taka þátt í samtalinu og einnig tók einn af kennurum skólans þátt í því. Aftur ítrekuðu Þorgrímur og Ágústa að nemendur hefðu verið ókurteisir og ómálefnalegir á framboðsfundinum. Á sama tíma var Sigmundur Davíð að spjalla við nemendur sem voru í Gryfjunni og hann kom aldrei inn í þetta samtal.
Skólameistari yfirgaf því næst Gryfjuna en áfram hélt samtal Ágústu og Þorgríms við aðstoðarskólameistara og fleiri sem þar voru. Aðstoðarskólameistari útskýrði aftur fyrir þeim fyrirkomulag fundarins og að engar forsendur hafi verið til þess að ritstýra því sem þar fór fram. Þegar þarna var komið sögu höfðu frambjóðendur Miðflokksins verið í rúman hálftíma á skólanum. Aðstoðarskólameistara var þá bent á að Sigmundur Davíð væri farinn að krota á óviðeigandi hátt á kynningarvarning annarra framboða sem hafði legið frammi í Gryfjunni frá því um morguninn. Aðstoðarskólameistari gekk að borðinu þar sem Sigmundur Davíð sat við skriftir, sá hvað hann var að gera og orðaði það svo að þetta væri nú orðið ágætt. Sigmundur virtist ekki heyra þá athugasemd. Í kjölfarið sagði aðstoðarskólameistari Þorgrími og Ágústu þá skoðun sína að þessi heimsókn væri ekki málefnaleg, þetta væri orðið gott, og bað þau þrjú um að yfirgefa skólann. Þegar við því var ekki orðið ítrekaði aðstoðarskólameistari ósk sína um að þau yfirgæfu skólann. Við því var þá loks orðið.
Skömmu síðar sátu stjórnendur skólans fund í skólanum og áttu ekki von á öðru en að þessu máli væri lokið. Svo var aldeilis ekki. Skólameistari fékk ítrekaðar fyrirspurnir fjölmiðla um hvað hefði gerst í VMA þegar frambjóðendur Miðflokksins voru í skólanum fyrr um daginn og var vísað til myndbirtingar frá heimsókn þeirra. Skólameistari svaraði því sem hann vissi á þeim tíma, hann hefði ekki séð myndir sem birtar höfðu verið í fjölmiðlum.
Í gærkvöld birtir Sigmundur Davíð á Facebook síðu sinni eigin útskýringar á kroti sínu á kynningarvarning annarra flokka. Ábyrgðina á hans eigin gjörðum setur hann á nemendur sem hann segir hafa sagt sér að skreyta myndirnar og húfuna. Af þessu tilefni er rétt að hafa í huga að eitt er að fá eiginhandaráritanir en annað er að gera það sem fyrrum forsætisráðherra Íslands finnst viðeigandi að gera við myndir af frambjóðendum annarra framboða. Með færslu sinni á Facebook birtir Sigmundur mynd af sér sem hann tók í VMA með nokkrum nemendum, sumir þeirra eru ólögráða. Þessir nemendur vissu ekki að þessi mynd yrði síðar notuð í pólitískum tilgangi á Facebook síðu Sigmundar Davíðs.
Gjörðir Sigmundar Davíðs í VMA í gær eru á hans ábyrgð. Það sem Ágústa og Þorgrímur sögðu um nemendur sem skipulögðu framboðsfundinn er á þeirra ábyrgð. Skólameistari harmar að nemendur séu dregnir fram sem gerendur í þessu máli. Sigmundur Davíð fullyrðir að nemendur hafi beðið hann að skreyta kosningavarning annarra framboða samkvæmt leiðsögn þeirra. Nemendur hafa stigið fram og vísað þessu á bug.
Skólameistara ber að gæta hagsmuna nemenda og frábiður sér frekari ásakanir í garð nemenda VMA um ómálefnalegar og dónalegar spurningar á framboðsfundi sem þeir skipulögðu. Skólameistari stendur með nemendum, er stoltur af verkum þeirra og getur ekki gert annað en varið hagsmuni þeirra. Ábyrgðin er hjá Sigmundi Davíð, Ágústu og Þorgrími.
Ég bið nemendur sem lögðu sig fram og héldu frábæran framboðsfund, nemendur sem birtust á mynd með Sigmundi Davíð og foreldra þeirra afsökunar á að hafa ekki stöðvað þessa heimsókn fyrr en gert var.
21. nóvember 2024,
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA