Ýkt Elding í Gryfjunni
Það var Grísdagur í VMA í gær, enda styttist óðum í frumsýningu á söngleiknum Grís. Eins og kom fram hér á heimasíðunni í gær verður þessi sívinsæli söngleikur frumsýndur í Gryfjunni að viku liðinni, föstudagskvöldið 19. febrúar. Geymið ekki að panta ykkur miða, nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna en þrjár aðrar sýningar eru komnar í sölu!
Leikhópurinn í Grís steig á svið í Gryfjunni í gær og flutti eitt atriði úr söngleiknum - sönginn um hina ýktu Eldingu. Leðurtöffararnir á sviðinu sungu og dönsuðu og gáfu tóninn fyrir það sem koma skal. Það er augljóslega full ástæða til að hlakka til þess að hverfa inn í heim krakkanna í Rydel High skólanum í Kaliforníu árið 1959.
Við lok Tíufrétta Rúv í gærkvöld birtist myndskeið af þessari uppákomu í Gryfjunnni og einnig sjást nokkrir starfsmenn VMA í góðum gír. Myndskeiðið hefst á 13:08 mín.
Söngleikurinn Grease var fyrst sýndur árið 1971 en sjö árum síðan birtist á hvíta tjaldinu samnefnd kvikmynd byggð á söngleiknum, með John Travolta og Olivia Newton John í hlutverkum Danny Zucko og Sandy Olsen.
Það er sem sagt nákvæmlega hálf öld síðan söngleikurinn Grease var frumsýndur í Bandaríkjunum og enn er hann jafn vinsæll um allan heim.