Ylfa Rún Arnarsdóttir Fjallkonan á 17. júní hátíð Akureyrarbæjar
Góðir Íslendingar,
kæru gestir,
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, kvað skáldið Einar Benediktsson og hafði lög að mæla. Því til er það sem enginn getur verið án en allir geta gefið án þess að kosta nokkru til. Ég er að tala um kærleikann, brosið, vonina.
En í amstri dagsins vill þessi einfaldi sannleikur gjarnan gleymast. Fólki hættir til að sífellt þiggja án þess að gefa. Við eigum það stundum til að gleyma að gefa hvert öðru og sjálfum okkur kærleika, en án kærleikans visnar hvert eilífðar smáblóm, hvert mannsins hjarta verður kalið, hvert samfélag manna leysist upp - sem dæmin sanna. Því það ríkir ekki mikill kærleikur í hjörtum þeirra sem heyja stríð og fara með ofbeldi og yfirgangi gegn meðbræðrum og -systrum á móður jörð.
***
Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna komst Páll postuli svo að orði um kærleikann:
Þótt ég talaði tungum manna og engla,
en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking,
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað,
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum,
og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur,
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.
Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
***
Í dag erum við saman komin hér í fallega Lystigarðinum okkar til að minnast stofnunar lýðveldisins Íslands og þeirra sem stóðu í fylkingarbrjósti í sjálfstæðisbaráttu þjóðar. Þá skulum við hugsa til kærleikans og þeirrar staðreyndar að baráttan fyrir sjálfstæði okkar sem fullvalda þjóðar var háð með íslenskri tungu, orðum og rökum - án blóðsúthellinga en með kærleika.
Hugsum til þeirra milljóna manna sem þurfa á því herrans ári 2023 að há mannskæða varnarbaráttu til að verja fullveldi sitt fyrir yfirgangi og ofbeldi. Hugsum til þess hversu lánsöm við erum að eiga lýðveldið Ísland sem verður vonandi um ókomna tíð fyrst og fremst reist á skynsemi, rökvísi, trú, von og kærleika.
Góðir Íslendingar,
kæru gestir,
gleðilega þjóðhátíð!
Fréttin er fengin af vef Akureyrarbæjar.