Fara í efni

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna styrkir nemendasjóð VMA

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Þórunnar hyrnu, Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA, …
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Þórunnar hyrnu, Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA, Sigríður Sía Jónsdóttir og Þórhildur Kristjánsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna á Akureyri styrkti í gær nemendasjóð VMA um 300.000 krónur og skal þessum fjármunum varið til stúlkna/kvenna sem þurfa samkvæmt mati sérfræðinga skólans, fjárhagslega aðstoð til að geta keypt tölvu fyrir námið, eins og segir í gjafabréfinu sem fylgdi styrknum.

Hlutverk  nemendasjóðsins er að leggja nemendum lið sem þess þurfa með því að veita fjárhagslegan stuðning, t.d. til að greiða húsaleigu, kaup á fæði í mötuneyti VMA, kaup á skólabókum eða öðru því sem nemandinn þarf til náms.

Í viðtali við netmiðilinn Akureyri.net í dag segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Þórunnar hyrnu og fyrrv. kennari við VMA, um styrkinn: Zontaklúbburinn Þórunn hyrna er hluti af alþjóðahreyfingu Zonta kvenna. Tilgangurinn með starfinu er að styðja við konur og stúlkur og vinna að jafnrétti, bæði með alþjóðlegum verkefnum og líka hérna heima. Þetta sem erum að gera núna, að styðja við stúlkurnar í VMA sem þurfa á því að halda, er skínandi gott dæmi um innanlandsverkefni sem klúbburinn vinnur að.

 Sjá hér umfjöllun Akureyri.net um styrkveitinguna.

Verkmenntaskólinn á Akureyri þakkar af heilum hug Zontakonum fyrir þennan mikilvæga og góða stuðning við nemendasjóð VMA