Fimmta sýning á Ávaxtakörfunni nk. sunnudag - sala hafin á sjöttu sýninguna 11. mars
Ekki er ofsögum sagt að Ávaxtakarfan í uppfærslu Leikfélags VMA hafi fengið frábærar viðtökur þeirra sem hafa séð sýninguna. Um þetta vitna fjölmargar fb-færslur og leikdómur í Vikudegi á dögunum var afar lofsamlegur.
Upphaflega stóð til að fjórar sýningar yrðu á verkinu, tvær sunnudaginn 11. febrúar og tvær sl. sunnudag, 18. febrúar, en eftir fyrri sýningarhelgina var vegna mikillar eftirspurnar ákveðið að bæta við aukasýningu sem verður nk. sunnudag, 25. febrúar, kl. 14 og nú er hafin miðasala á sjöttu sýninguna, sem verður sunnudaginn 11. mars kl. 14.
Pétur Guðjónsson, leikstjóri Ávaxtakörfunnar, segist vera í sjöunda himni með aðsóknina og viðtökur áhorfenda. “Ég get ekki annað, þetta hefur gengið frábærlega vel og sýningin hefur fengið virkilega góðar viðtökur og umtal. Leikararnir skemmta sér vel á sviðinu og það skilar sér til áhorfenda,” segir Pétur.
Í framangreindum leikdómi í Vikudegi 15. febrúar sl., sem Ágúst Þór Árnason skrifar, segir hann m.a.: “Það fer ekki á millli mála að hér hefur verið unnið þrekvirki af öllum sem hlut eiga að máli. Pétur Guðjónsson, sem hefur stýrt sýningum Leikfélags VMA þrívegis á síðastliðnum sex árum, á sérstakan heiður skilið en samstarfsfólk hans hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja. …. Þetta unga fólk getur svo sannarlega verið stolt yfir sýningu sem hélt ungum sem öldnum föngnum í nær tvo klukkutíma.”
Sem fyrr segir verður fimmta sýning á Ávaxtakörfunni í Menningarhúsinu Hof nk. sunnudag, 25. febrúar kl. 14 og síðast þegar vitað var voru örfá sæti eftir á þá sýningu. Nú þegar er hafin sala á sjöttu sýninguna þann 11. mars. Miðasalan er á mak.is