Fara í efni

Úr vélstjórninni í VMA í borverkefni á Filippseyjum

Pétur Ásbjarnarson og Björn Kort Gíslason komnir á fornar slóðir í VMA að þreyta sveinspróf í vélvir…
Pétur Ásbjarnarson og Björn Kort Gíslason komnir á fornar slóðir í VMA að þreyta sveinspróf í vélvirkjun.

Fyrir réttu ári rákust skólafélagarnir í vélstjórn í VMA, Akureyringarnir Björn Kort Gíslason og Pétur Ásbjarnarson, á atvinnuauglýsingu á Facebook sem fangaði þá strax; að vinna að borverkefnum hjá Jarðborunum hf. (e. Iceland Drilling) á Filippseyjum. Þeir voru fljótlega teknir í atvinnuviðtal og voru snarlega ráðnir til starfa. Þegar þeir síðan útskrifuðust vélstjórar frá VMA undir lok maí í fyrra voru þeir því báðir með spennandi atvinnu upp á vasann, í fjarlægum heimshluta. Og strax daginn eftir útskriftina hélt Pétur til Filippseyja og Björn ekki löngu síðar. Nú hafa þeir félagarnir verið við störf á Filippseyjum í tæpa níu mánuði og láta mjög vel af sér. Þeir sjá síður en svo eftir því að hafa stokkið út í djúpu laugina og reynt fyrir sér í einhverju sem þeim hefði fyrir rúmu ári síðan hreint ekki dottið í hug að þeir ættu eftir að takast á við.

En hvað felst í vinnu þeirra félaganna á Filippseyjum? Í stórum dráttum að standa borvaktina. Borað er allan sólarhringinn á tveimur tólf tíma vöktum. Því er unnið á bæði dag- og næturvöktum. Hver vinnutörn er 28 dagar og síðan tekur við 28 daga frí. Og svona rúllar þetta mánuð eftir mánuð. Vinnan er sem sagt sú að standa borvaktir og sjá til þess að allt gangi eðlilega fyrir sig. Í því felst m.a. að halda búnaðinum við, bæði fyrirbyggjandi viðhald og viðgerðir ef eitthvað ber út af.

Rétt eins og á Íslandi eru Filippseyjar ríkar af jarðvarma í iðrum jarðar og verkefni Jarðborana er að bora eftir gufu fyrir gufuaflsvirkjanir, ekki ósvipað og þekkt er hér á Íslandi á Þeistareykjum, Kröflu, Nesjavöllum og víðar. Sem næst fimmtungur orku Filippseyinga kemur frá gufuaflsvirkjunum. Unnið er á tveimur borum, Tý (300 tonna bor) og Þór (350 tonna bor), og segja Björn og Pétur að verkið hafi gengið mjög vel og Filippseyingar séu hæstánægðir með hvernig staðið sé að málum - og árangurinn sé góður. Borað er niður á allt að þrjú þúsund metra dýpi.

Björn og Pétur segjast ekki hafa þekkt neitt til jarðborana áður en þeir skelltu sér í þetta verkefni á Filippseyjum en þeir séu sannarlega reynslunni ríkari og hafi lært helling af nýjum hlutum, t.d. eitt og annað varðandi glussakerfi og rafmagn. Og vélstjórnarnámið þeirra í VMA eru þeir sammála um að hafi nýst þeim fullkomlega í þessari vinnu – og þeir nefna í framhjáhlaupi, nemendum til hvatningar – að það sé sannarlega þörf fyrir fleiri vélstjóra!

En hvað með framhaldið? Því segjast Björn og Pétur ekki geta svarað að öðru leyti en því að þeir verði áfram á Filippseyjum í þessu verkefni sem stefnt er að því að ljúka í vor. Síðan segja þeir að komi þá bara í ljós hvað taki við, hvort sem það kunni að verða frekari verkefni á Filippseyjum, á Íslandi eða í einhverju allt öðru landi. Sem stendur eru Jarðboranir með tvö jarðboranaverkefni, annars vegar á Filippseyjum og hins vegar á Nesjavöllum.

Bróðurpartur starfsmanna í þessu verkefni Jarðborana á Filippseyjum eru heimamenn, starfsmenn frá Nýja-Sjálandi og víðar en í borununum sjálfum eru innan við tíu Íslendingar. Tungumálið á Filippseyjum er enska og því eru tjáskipti ekki vandamál. Björn og Pétur láta mjög vel af heimamönnum og samskiptum við þá, þeir séu afar jákvæðar og með bros á vör, hvað sem á dynur.

Borverkefnið er í Dumaguete á Negros-eyjunni, sem er sunnarlega í eyjaklasa Filippseyja. Og svona fyrir þá sem ekki eru glöggir í landafræðinni: Filippseyjar eru í austurhluta Asíu, í suðri er Indónesía, í norðri er Taiwan og Kína og í vestri er Víetnam. Þegar farið er frá Íslandi er áfangastaðurinn höfuðborgin Maníla en þaðan er síðan flogið áfram í um klukkutíma suður til Negros.

Við brautskráningu í vélstjórn sl. vor var stefnan alltaf tekin á að ljúka sveinsprófi í vélvirkjun núna í febrúar og þrátt fyrir að vinna á Filippseyjum gekk það upp. Pétur náði að nýta sitt vaktafrí til þess að taka undirbúningsnámskeið og búa sig undir sveinsprófið og taka prófið og málum var hliðrað til fyrir Björn þannig að hann gæti líka tekið sveinsprófið. Því þreyttu þeir báðir sveinspróf í vélvirkjun í húsakynnum VMA um þarsíðustu helgi. Og síðan áfram gakk á Filippseyjum.