Bílar í forgrunni
Andri Hafþór Þorgilsson stundar nám á listnáms- og hönnunarbraut skólans. Tilviljun ein réð því að hann fór á þá braut. Þegar Andri kom í VMA 2021 var hann til að byrja með í grunndeild málmiðnaðar af þeirri ástæðu að hann var ákveðinn í að fara í bifvélavirkjanám í framhaldinu. En það gekk ekki upp því á þessum tíma var smá uppihald í bifvélavirkjuninni í VMA. Andri lagði þá stóra lykkju á leið sína og ákvað að fara í listnám í staðinn – og nú er hann farinn að sjá fyrir endann á því, hann stefnir á að ljúka náminu í desember nk.
Þessa dagana er upp á vegg við austurinngang VMA verk eftir Andra sem hann vann í akrílmálunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn ’24. Aðferðin sem Andri beitti var að yfirfæra ljósmynd yfir á striga með akrílgeli. Ljósmyndina tók Andri og er bíll í forgrunni. Bílar eru eitt af hans aðal áhugamálum og annað er ljósmyndun. Hann rifjar upp að ljósmyndabakteríuna hafi hann fengið á síðasta ári í grunnskóla (Síðuskóla á Akureyri) í kjölfar ljósmyndanámskeiðs sem boðið var þar upp á.
Andri orðar það svo að bílar hafi verið hans áhugamál frá því að hann muni eftir sér og af þessum áhuga hafi sprottið sú stefna hans að læra bifvélavirkjun á sínum tíma. En af því gat ekki orðið á þeim tíma, sem fyrr segir, en eftir sem áður er bílaáhuginn til staðar og hann segist sameina áhugann á bílum við ljósmyndaáhugann með því að taka mikið af myndum af bílum. Þessar bílaljósmyndir verða einmitt viðfangsefnið í lokaverkefninu á listnámsbrautinni sem Andri er nú að vinna að. Hann segir hugmyndina ekki að fullu mótaða en hann sér fyrir einhvers konar innsetningu þar sem bílamyndirnar verði þemað.
En hvað tekur við eftir VMA? Andri segir framtíðina óráðna en hann stefni að því að fara út á vinnumarkaðinn, að minnsta kosti til að byrja með. Hann segist vinna í hlutastarfi með skólanum við útkeyrslu hjá Póstinum og þá hafi hann í gegnum tíðina unnið við eitt og annað sem tengist bílum, t.d. á bónstöð og hjólbarðaverkstæði. Og síðustu tvö sumur hefur Andri unnið á umhverfisstöð Akureyrarbæjar.
Þrátt fyrir að hafa ekki stefnt á listnám í upphafi er hann mjög sáttur að hafa farið í gegnum þetta nám í VMA. Þetta hafi verið góður tími og hann hafi lært margt. Tölvuvinna og grafíska hönnunin höfði meira til hans en teikning og skissur. Hann segist nýta sér ýmis forrit í grafíska hönnun og vinnslu ljósmynda. Heimur sem sé í senn heillandi og gefi mikla möguleika.