Elísa Ýrr kom, sá og sigraði - aftur
Elísa Ýrr Erlendsdóttir sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi sem haldin var í Menningarhúsinu Hofi sl. laugardagskvöld. Eins og í Söngkeppni VMA í vetur, þar sem Elísa Ýrr söng einnig til sigurs, flutti hún lag Amy Winehouse, You know I‘m no good. Í öðru sæti í keppninni varð Jón Tumi úr MA og í því þriðja Elvar, Guðjón og María úr Framhaldsskólanum á Laugum.
Sjö skólar tóku þátt í söngkeppninni í Hofi: Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði, Framhaldsskólinn á Laugum í Reykjadal, Framhaldsskólinn á Húsavík og Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað. Allir skólarnir að undaskildum Menntaskólanum á Tröllaskaga fluttu tvö atriði og því voru þau í heildina þrettán. Hitt atriðið frá VMA var hið frumsamda lag Friendship sem lagahöfundurinn Anton Líni Hreiðarsson flutti. Lagið lenti í öðru sæti í Söngkeppni VMA.
Dómnefnd keppninnar skipuðu þau Friðrik Ómar Hjörleifsson, Erna Hrönn Ólafsdóttir og Sumarliði Hvanndal. Við kynningu á úrslitum kvöldins kom fram í þeirra máli að það hafi sannarlega verið erfitt að komast að niðurstöðu, svo mörg frambærileg atriði hefðu verið flutt, en frammistaðan hjá Elísu Ýrr verðskuldaði þó sigurinn.
Kynnir kvöldsins var útvarpsmaðurinn og fyrrum nemandi VMA, Sigurður Þorri Gunnarsson.
Við flutning lagsins naut Elísa Ýrr stuðnings tveggja saxófónleikara úr MA, Sölva Halldórssonar og Guðrúnar Önnu Halldórsdóttur. Og að sjálfsögðu lagði frábær hljómsveit keppninnar henni lið, en í henni voru Arnar Tryggvason á hljómborð, Stefán Gunnarsson á bassa, Valgarður Óli á trommur og Hallgrímur Jónas á gítar.
Áður en úrslitin voru kunngjörð tóku tveir dómnefndarmanna, Friðrik Ómar og Erna Hrönn, lagið og fóru á kostum. Friðrik Ómar söng fyrst, síðan Erna Hrönn og loks stilltu þau saman strengi og sungu eitt kröftugt Tina Turner lag.
Eins og venja er í slíkri keppni var sigurlagið flutt í lokin.
Elísa Ýrr var að vonum mjög ánægð með sigurinn. Hún sagðist verða að viðurkenna að hún hafi ekki átt von á þessu, enda hafi keppnin verið mjög sterk, rétt eins og Söngkeppni VMA. En í ljósi þess hversu keppnin var sterk sagðist hún vera enn ánægðari með að hafa náð að sigra. Hún sagðist halda markvisst áfram í söngnámi í Tónlistarskólanum á Akureyri, en þar nýtur hún leiðsagnar Þórhildar Örvarsdóttur söngkonu. Framundan eru meðal annars djasstónleikar skólans í vor og næsta haust mun hún taka svokallað miðstig í söng. Náminu í VMA lýkur Elísa Ýrr að óbreyttu um jólin 2017 og síðan er stefnan að fara strax utan og halda áfram í söngnámi og bæta leiklistinni við.