Ellefu í sveinsprófi í vélvirkjun

Sveinspróf í vélvirkjun var í húsakynnum málmiðnbrautar VMA um síðustu helgi og þreyttu ellefu prófið, flestir próftakanna höfðu verið í námi í VMA.
Prófið var tvískipt, annars vegar tveggja tíma skriflegt próf sem var föstudaginn 7. febrúar. Í skriflega prófinu var m.a. spurt um vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar og verkáætlanir auk almennra spurninga.
Verklegi þáttur prófsins var síðan sl. laugardag og sunnudag, 8. og 9. febrúar, og höfðu próftakar þrettán klukkustundir til þess að ljúka þessum prófhluta. Verklega prófið skiptist í smíðaverkefni, bilanaleit í díselvél, slitmælingar í díselvél, suðuverkefni þar sem prófað var í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið.