Fyrsti fundur í WorkQual verkefninu í VMA
Fyrsti fundur í verkefninu WorkQual - Workmentoring within a Quality Management System, sem er verkefni sem VMA stýrir innan Erasmus+ áætlun ESB, var haldinn í VMA fimmtudag og föstudag, 13. og 14. nóvember.
Eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni fékk VMA afhentan styrk snemma í október sl. um þetta nýja alþjóðlega þróunarverkefni innan Erasmus+ áætlunarinnar og verður það unnið árin 2014 - 2016.
Samstarfsaðilar VMA í þessu verkefni eru stofnanir í Noregi, Finnlandi, Hollandi, Frakklandi og Englandi – sjá nánar hér.
WorkQual verkefnið felur í sér að taka saman og staðla það nauðsynlegasta sem þarf að gera og hafa tilbúið þegar skólar senda nemendur í vinnustaðanám. Til dæmis má nefna að sjúkraliðanemar í VMA fara í vinnustaðanám á sjúkrastofnunum, bæði innanlands og utan. Aðrar námsbrautir senda nemendur ýmist í stuttan tíma til að kynnast vinnustöðum eða að nemar fara á lengri námssamning í iðngreinum.
Á fundinum í VMA í síðustu viku var til að byrja með rætt um fyrirkomulag verkefnsins og hvernig það verði unnið. Seinni daginn, þ.e. sl. föstudag, var fundað með fólki frá ýmsum stofnunum á Akureyri um vinnustaðanám, hvað þurfi að undirbúa og hverju þurfi að ganga frá þegar nemendur fara í vinnustaðnám. Hér eru myndir sem voru teknar af fundunum í VMA sl. fimmtudag og föstudag.
Að sögn Jóhannesar Árnasonar, sem annast erlend samskipti innan VMA og stýrir WorkQual af hálfu skólans, er þetta verkefni í beinu framhaldi af samstarfi sömu aðila í fyrri verkefnum. Hópurinn þekkist vel og hefur víðtæka reynslu af vinnustaðanámi og tengslum skóla og vinnustaða. „Viðtökurnar hér á Akureyri voru afbragðsgóðar þegar ég bað fólk um að koma á fundinn til okkar. Vinnumálastofnun á Akureyri, Akureyrarbær og fleiri sendu fulltrúa á fundinn og voru með mjög nytsamleg innlegg. Til dæmis var bent á ýmislegt sem þarf að hafa í huga og lagfæra frá því sem við gerum núna. Svo er alveg hægt að benda á að önnur samstarfsverkefni sem VMA tekur þátt í fjalla um svipaða hluti. Sérstakt verkefni um brottfall og hvað er hægt að læra af öðrum um það. Starfsbrautin er í verkefni um vinnustaðanám líka og almenna brautin er að fjalla um það að senda nemendur í nám milli landa.“ Um þessi verkefni er hægt að fræðast á vef VMA.
Sem fyrr segir lýkur WorkQual verkefninu að tveimur árum liðnum. Næsti fundur í verkefninu verður í Hereford í Englandi í mars 2015. Eftir það verða fundir í Hollandi og Frakklandi og loks verður lokaráðstefna verkefnisins haldin í Þrándheimi í Noregi haustið 2016.