Fara í efni

VMA boðar til fundar 17. febrúar um samstarf atvinnulífs og skóla í iðn- og starfsnámi

Næstkomandi mánudag, 17. febrúar kl. 16:30, boðar VMA til fundar um samstarf atvinnulífs og skóla í iðn- og starfsnámi. Fundurinn verður í stofu M01. Á fundinum verður fjallað um vinnustaðanám og ferilbækur nemenda við VMA. Auk fulltrúa VMA verður Ólafur Jónsson verkefnastjóri frá Nemastofu atvinnulífsins á fundinum.

Fulltrúar fyrirtækja sem eru með nemendur á samning í mismunandi atvinnugreinum eru hvattir til þess að mæta á fundinn og fá beint í æð upplýsingar um fyrirkomulag vinnustaðanáms og ferilbókar. Unnur Ása Atladóttir, sviðsstjóri verknáms í VMA, mun fara yfir þessi mál og það mun Ólafur frá Nemastofu einnig gera. Einnig verða fulltrúar verknámsbrauta skólans á fundinum og veita upplýsingar.

Í tengslum við fundinn verður boðið upp á kynningarferð um kennsluaðstöðu verknámsbrautanna í skólanum, fyrir þá sem þess óska.

Nemastofa atvinnulífsins var sett á stofn fyrir tæpum þremur árum og að henni stóðu Rafmennt og Iðan. Nemastofan er hugsuð sem samstarfsvettvangur atvinnulífsins um bætt vinnustaðanám og fjölgun faglærðs starfsfólks. Áhersla Nemastofunnar er að fjölga fyrirtækjum sem taka nema á vinnustaðanámssamning, með því m.a. að aðstoða og upplýsa forsvarsmenn fyrirtækja í því skyni að veita nemum alla þá þjálfun sem rafræn ferilbók kveður á um að veitt sé í vinnustaðanámi.

Auk fundarins kl. 16:30 verður Ólafur Jónsson fulltrúi Nemastofu atvinnulífsins fyrr um daginn á kynningar- og upplýsingafundum með nemendum á verknámsbrautum VMA og einnig mun hann eiga samtal við nemendur í kvöldskólum VMA. Fyrir áramót var slík kynning fyrir nemendur í byggingadeild en á mánudaginn kl. 10 verður kynning fyrir nemendur í hársnyrtiiðn, mál- og vélgreinum og matvælagreinum og kl. 13 verður kynning fyrir nemendur í rafiðngreinum.

Vert er að geta þess að á heimasíðu skólans er eitt og annað að finna um vinnustaðanám og ferilbók nemenda.