Fara í efni

Skautastrákar með landsliðinu í Mexíkó

Landsliðsstrákarnir í U-18 landsliðinu í íshokkí sem stunda nám í VMA: Bjartur Westin, Gabríel Snær …
Landsliðsstrákarnir í U-18 landsliðinu í íshokkí sem stunda nám í VMA: Bjartur Westin, Gabríel Snær Benjamínsson, Elvar Örn Skúlason, Stefán Darri Guðnason og Alex Máni Ingason.

Dagana 28. febrúar til 9. mars sl. fór fram í Mexíkó einn riðill eða deild í heimsmeistaramóti U-18 landsliða í íshokkí. Ísland var á meðal þátttökuþjóða og í íslenska liðinu voru fimm nemendur í VMA; Bjartur Westin, Gabríel Snær Benjamínsson, Elvar Örn Skúlason, Stefán Darri Guðnason og Alex Máni Ingason. Allir spila þeir íshokkí með Skautafélagi Akureyrar.

Íslenska liðið spilaði fimm leiki í Mexíkó – við heimamenn, Tyrkland, Nýja-Sjáland, Ísrael og Hong Kong. Bjartur Westin segir að árangurinn hafi ekki verið alveg eins og þeir hefðu viljað, sigur gegn Tyrkjum en tap í hinum fjórum leikjunum. Lokaniðurstaða mótsins gerði það að verkum að íslenska liðið féll niður um deild.

Þetta er í annað skipti sem Bjartur spilar með íslenska liðinu erlendis, á síðasta ári keppti hann í Tyrklandi. Hann segir þátttöku í móti sem þessu vera mikla upplifun, hún sé sannarlega mikilvægt krydd á keppnistímabilinu og mikil hvatning að halda áfram að bæta sig. Auk íshokkísins sjálfs gefist tækifæri til þess að kynnast öðrum strákum í bæði íslenska landsliðinu og öðrum þátttökuþjóðum, það sé dýrmætt veganesti.

Bjartur hóf að æfa íshokkí árið 2017 og hefur því æft og spilað íþróttina í átta ár. Hann er þakklátur fyrir að hafa valið þessa íþrótt og að fá tækifæri til að spila með Skautafélagi Akureyrar og fyrir Íslands hönd í landsliðinu.