Galdurinn á bakvið eldamennskuna
Á haustönn hófu 33 nemendur nám í grunndeild matvæla- og ferðagreina en þeir fá þar innsýn í bæði eldamennsku og þjónustustörf. Þetta er annað árið sem námið er samkvæmt nýrri námsskrá sem hefur aukna áherslu á að mennta starfsmenn fyrir þá vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan í landinu er.
Fáir sáu fyrir þann gríðarlega vöxt sem hefur verið í íslenskri ferðaþjónustu. Á þessu ári gætu erlendir ferðamenn sem sækja landið heim orðið um 1,6 milljónir, sem er algjör sprenging ef horft er fimm ár aftur í tímann. Og þessi mikla fjölgun erlendra ferðamanna hefur að vonum kallað á fjölgun gistihúsa, hótela og síðast en ekki síst veitingahúsa. Vandamálið er hins vegar að of fátt fagmenntað fólk er í landinu – bæði kokkar og þjónar – til þess að mæta þessum mikla vexti. Þess vegna gegna þeir skólar sem kenna áðurnefndar greinar – t.d. VMA – afar mikilvægu hlutverki fyrir þessa vaxandi atvinnugrein. Störfin hreinlega bíða eftir öllum þeim kokkum og þjónum sem ljúka þessu námi.
Áður en nemendur geta lært hvort sem er að verða kokkar eða þjónar þurfa þeir að fara í grunndeild og þar læra þeir að sjálfsögðu öll grundvallaratriðin í því að elda og þjóna til borðs. Í brautarlýsingunni segir m.a.: Námið er undirbúningur fyrir iðnnám í matreiðslu, bakstri, framreiðslu og kjötiðn en einnig er það undirbúningur fyrir frekara nám í matartækni og/eða í ferðaþjónustu.
Á dögunum fylgdumst við með nemendum í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA undirbúa máltíð þar sem á borðum var m.a. lax og dýrindis súpa. Margar hendur voru á lofti og kennararnir, Marína Sigurgeirsdóttir og Valdemar Pálsson, sýndu nemendum réttu handbrögðin. Þessar myndir voru teknar við það tækifæri.