Fara í efni

Góður gestur frá Luovi í Helsinki

Rea-Susan Isotupa, sérkennari í Ammattiopisto Luovi skólanum í Helsinki.
Rea-Susan Isotupa, sérkennari í Ammattiopisto Luovi skólanum í Helsinki.

Þessa viku hefur Rea-Susan Isotupa, sérkennari frá Ammattiopisto Luovi (Luovi Voccational College) í Helsinki í Finnlandi, verið í heimsókn í VMA og kynnt sér skólastarfið, ekki síst námið á starfsbraut, sérnámsbraut og matvælabraut skólans. Fyrst og fremst starfar Rea-Susan við kennslu þrettán nemenda á matvælasviði Luovi-skólans en fjóra daga í viku elda þeir og selja hádegismat fyrir um fjörutíu manns. Í raun er hér því um að ræða eitt lítið veitingahús sem nemendur og kennarar þeirra starfrækja.

Undir merkjum Luovi eru um þrjátíu skólar af ýmsum stærðum um allt Finnland og heildarfjöldi nemenda í þeim er um 2300. Starfsmenn í þessum skólum eru ríflega 950, sem er til marks um áherslur þessara skóla á einstaklingsmiðað nám. Rea-Susan segir áherslu skólanna vera á að búa nemendur sem best undir framtíðina, hvort sem er á vinnumarkaði eða í hinu daglega lífi. Áherslur Luovi eru á góða tengingu við atvinnulífið og segir Rea-Susan að það samstarf sé í senn jákvætt og mikilvægt. Nemendur í veitingahúsahluta Luovi eru nú á aldrinum 15 til 26 ára.

Heimsókn Rea-Susan í VMA er styrkt af Erasmus+. Hún kom til Akureyrar sl. mánudag og fer aftur suður í dag. Hún segist aldrei hafa áður komið til Íslands en lengi langað til þess. Því hafi ekki verið spurning að nýta tækifærið þegar boðist hafi að kynna sér skólastarfið í VMA og sjá landið, eða a.m.k. hluta þess, í leiðinni. Síðastliðinn þriðjudag fékk hún tækifæri til þess að skoða sig aðeins um í Mývatnssveit og var meðal annars gengið upp á Hverfjall. Finland er jú þekkt fyrir vetrarríki og þaðan kemur margt af besta skíðagöngu- og skíðastökksfólki heims. En Rea-Susan segir það sama upp á teningnum í Finnlandi og hér á Íslandi að lítið fer fyrir snjónum þessa dagana og vikurnar og rauðar hitatölur eru dag eftir dag.