Fara í efni

Leikskólakrakkar í heimsókn

Elstu krakkarnir á leikskólanum Lundarseli á Akureyri í Gryfjunni í VMA.
Elstu krakkarnir á leikskólanum Lundarseli á Akureyri í Gryfjunni í VMA.

Fátt er skemmtilegra en að fá ungu kynslóðina í heimsókn í skólann og fá tækifæri til þess að sýna henni skólastarfið og öll þau skúmaskot sem húsakynni skólans bjóða upp á. Sem endranær hefur verið gestkvæmt í VMA síðustu daga og þar á meðal hafa leikskólakrakkar af tveimur leikskólum Akureyrar sótt skólann heim. Krökkunum eru sýndar sérstaklega verknámsdeildir skólans enda heldur betur eitt og annað sem fangar augað.

Í síðustu viku kom hópur 5 ára leikskólakrakka (verða 6 á árinu og hefja nám í 1. bekk grunnskóla í haust) af leikskólanum Lundarseli í heimsókn í skólann og þá var þessi mynd tekin af þeim. Og í gær komu fimm krakkar af leikskólanum Tröllaborgum á Akureyri í heimsókn, rétt um það leyti er tónlistarmaðurinn og Júróvisjónflytjandinn Stebbi Jak steig á stokk í Gryfjunni í löngu frímínútunum og söng nokkur lög - þar á meðal lagið sem hann flytur í lokakeppni Júróvisjón næsta laugardagskvöld. Tröllaborgarkrakkarnir fengu því heldur betur skemmtilega ábót á heimsóknina í Gryfjunni, þó sumum hafi fundist hávaðinn vera aðeins of mikill!