Listhneigð hestakona
Engum blöðum er um það að fletta að hestar eiga allan hug Magneu Rutar Gunnarsdóttur. Hestamennskan hefur lengi fylgt henni enda eru ræturnar vestur í Austur-Húnavatnssýslu, nánar tiltekið á bænum Litladal í Húnavatnshreppi hjá afa sínum og ömmu. Hún var í grunnskóla í Húnavallaskóla og lauk honum vorið 2015, ætlaði síðan í Menntaskólann í Hamrahlíð um haustið en var þar aðeins í einn dag, leist engan veginn á að flytja í höfuðborgina. Innritaði sig síðan í svokallað dreifnám á Blönduósi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en ákvað þá að fara í VMA og hóf þar nám á listnámsbraut í janúar 2016. Hún er því að ljúka fimmtu önninni í maí nk. og brautskráist þá sem stúdent af listnámsbraut. Á haustönn málaði Magnea Rut akrílverk sem hún kallar "Huglaus" og hangir það nú upp á vegg mót austurinngangi skólans.
"Ég fór á listnámsbraut vegna þess að ég hef alltaf verið að teikna en sérstaklega hefur ljósmyndun heillað mig og ég gæti hugsað mér að læra meira í ljósmyndun. Ég hef lengi haft þörf fyrir að skapa og ég hef notið mín í náminu hér í VMA. Málverk var nýtt fyrir mér og mér fannst skemmtilegt að takast á við það. Ég sé þó ekki endilega fyrir mér að ég muni læra frekar á því sviði en örugglega mun ég grípa í penslana mér til skemmtunar," segir Magnea Rut. Auk náms í dagskólanum segist hún alltaf hafa nýtt sér fjarnámið og tekið 1-2 fjarnámsáfanga í bóklegum fögum á hverri önn. "Ég hef tekið fjarnámsáfanga einfaldlega til þess að flýta fyrir mér í náminu. Þó svo að mér hafi líkað mjög vel við námið hér og hafi einnig gengið ljómandi vel, þá neita ég því ekki að ég er búinn að fá nóg í bili af skóla og finnst góð tilfinning að vera að ljúka stúdentsprófinu í vor," segir Magnea Rut.
Um framhaldið að loknu námi í VMA segist hún vera óráðin að öðru leyti en því að hún ætli sér að hella sér í auknum mæli í hestamennskuna. Vestur í Litladal í Húnaþingi segist hún hafa alist upp við hestamennsku og fengið þá bakteríu beint í æð. Þann tíma sem hún hefur verið á Akureyri hefur hún haft hesthúsrými á leigu fyrir tvo hesta og daginn byrjar hún alltaf á því að fara snemma dags upp í hesthús til þess að gefa hestunum. "Ég er yfirleitt komin þangað um klukkan sjö og þannig næ ég að fara í sturtu áður en ég fer í skólann. Sömuleiðis fer ég eftir skóla til þess að gefa hestunum. Það er ekkert sem jafnast á við að leggja á góðan hest og ríða út í góðu veðri," segir Magnea Rut og bros færist yfir andlitið. Hún segist erfitt að lýsa því hvað það sé í hestamennskunni sem heilli, fyrst og fremst sé hún lífsstíll. "Ég er náttúrubarn og það er minn draumur að starfa í hestamennsku í framtíðinni. Hvort ég fer í frekara nám á þessu sviði verður að koma í ljós síðar en fyrst og fremst horfi ég til þess eftir að ég lýk námi hér að afla mér aukinnar reynslu í reiðmennsku og tamningum. Svo sjáum við til hvað verður," segir Magnea Rut Gunnarsdóttir.