Seinni hálfleikur í æfingum á Ávaxtakörfunni - frumsýning 11. febrúar í Hofi
Fyrsti stóri viðburður í félagslífinu í VMA á þessari önn verður uppsetning á Ávaxtakörfunni og verður frumsýning í Menningarhúsinu Hofi 11. febrúar nk. Æfingar lágu að sjálfsögðu niðri frá og með haustannarprófunum í desember og þar til skólinn hófst aftur í síðustu viku en þær fara nú í fullan gang aftur.
Æfingar á Ávaxtakörfunni gengu ljómandi vel sl. haust, að sögn Péturs Guðjónssonar leikstjóra, og segir hann að miklu hafi verið áorkað í æfingum á leikritinu og ýmsu er varðar uppfærsluna, t.d. búningagerð sem hann segir að stórum hluta lokið. Leikritið verður æft allan þennan mánuð en frá og með 29. janúar færast æfingarnar inn í Hof og verða þar á sviðinu fram að frumsýningu. Eins og vera ber verða stífar æfingar á Ávaxtakörfunni í Hofi fram að frumsýningu.
Miðasala hófst á vef Menningarfélags Akureyrar í desember sl. og hefur hún farið ágætlega af stað. Pétur Guðjónsson segist merkja áhuga fólks að sjá sýninguna sem sé að sjálfsögðu afar jákvætt. Öll undirbúningsvinna aðstandenda sýningarinnar miði að því að hún standi fyllilega undir væntingum.
Ólafur Göran Ólafsson Gros, formaður Þórdunu, segir að ekki sé endanlega ákveðið með mögulega uppákomur í félagslífinu í þessum mánuði en ljóst sé að töluverð vinna fari í að undirbúa sýningar á Ávaxtakörfunni. Eftir frumsýninguna verði síðan öll áherslan á árshátíð Þórdunu sem verður eins og í fyrra í íþróttahúsi Síðuskóla. Dagsetningin er 2. mars nk. Nánari upplýsingar um árshátíðina, þ.m.t. skemmtikrafta, verða gerðar opinbera síðar.