Með mörg járn í eldinum
Fannar Smári Sindrason er sextán ára Eyfirðingur og býr á bænum Punkti í Eyjafjarðarsveit. Hann er á fyrsta ári í VMA, nánar tiltekið í grunnnámi rafiðna. Hann er mikill áhugamaður um ýmiskonar tæknilausnir og lætur verkin tala, eins og kom fram í viðtali við hann í frétta- og mannlífsþættinum Landanum á RÚV 8. október sl.
Eftir að Fannar Smári fékk að gjöf Arduino hugbúnað fóru hlutirnir að gerast. Hann þróaði ýmsar lausnir með hjálp þessa búnaðar og þá kom sér vel að hafa lært grunnatriðin í forritun á netinu og enskukunnáttan úr Hrafnagilsskóla nýttist sömuleiðis vel. „Ég hef lengi haft áhuga á tækni, ég veit svo sem ekki alveg af hverju en þetta þróaðist svona hægt og rólega,“ segir Fannar Smári. „Það er mjög skemmtilegt að halda áfram að grúska þar til maður er komin niður á lausnir sem virka,“ bætir hann við.
En Fannar Smári er ekki aðeins iðinn við kolann í hinum ýmsu tæknilausnum. Hann hefur einnig mikinn áhuga á myndvinnslu og í samvinnu við félaga sinn Tjörva Jónsson hefur hann unnið auglýsingu fyrir Domino‘s pizza og í farvatninu er auglýsingagerð fyrir Bautann. Þeir félagarnir vinna auglýsingarnar undir heitinu „Beam“ (geisli). „Við höfum lengi verið að gera ýmis kynningarmyndbönd sitt í hvoru lagi en frá því í síðasta mánuði höfum við unnið þetta saman og notum til þess góðar myndavélar og dróna og síðan klippum við auglýsingarnar og fullvinnum þær. Ætlun okkar er að þróa þetta áfram í framtíðinni.“
Sumarvinna Fannars Smára hefur verið fólgin í því síðustu þrjú sumur að slá garða fyrir hina og þessa í Eyjafjarðarsveit ásamt félaga sínum Kató. Þeir steyptu nöfnum sínum saman í eitt og kalla því sláttufyrirtækið „Fanntó“. Til að byrja með fengu þeir lánaða heimilissláttuvél foreldra Fannars Smára en þegar þeir félagarnir höfðu efni á keyptu þeir sína eigin sláttuvél. Skýringin á því að þeir ákváðu að hella sér í þessa þjónustu var ósköp einföld: „Okkur vantaði bara pening,“ segir hann og hlær.
Fannar Smári segir að ákvörðun um að fara í grunndeild rafiðna í VMA sé engin tilviljun. Sér hafi hugnast mun betur að fara í verklegt nám í stað bóklegs náms og þetta nám hafi staðið næst sínum áhugamálum. Tíminn verði að leiða í ljós með framhaldið en eftir grunndeildina telji hann meiri líkur en minni að hann haldi áfram í rafeindavirkjun. Hvað síðan gerist eftir það sé ómögulegt að segja en einn af áhugaverðum möguleikum sé vissulega einhvers konar tækninám eða jafnvel hugbúnaðarverkfræði. Allt komi þetta í ljós í fyllingu tímans.