Miðasala á árshátíðina fram á föstudag - Emmsjé Gauti í stað JóaPé og Króla
27.02.2018
Miðasala á árshátíð VMA í íþróttahúsi Síðuskóla nk. föstudagskvöld, 2. mars, er í fullum gangi og verður hægt að kaupa miða fram á föstudag. Nú er um að gera að drífa í því að kaupa miða því ekkert er til sparað til þess að gera árshátíðina sem allra glæsilegasta.
Af óviðráðanlegum ástæðum þurftu Jói og Króli að afboða sig í gærkvöld en stjórnarmenn Þórdunu dóu ekki ráðalausir og unnu ötullega að því að fá annan ekki síður frábæran listamann í þeirra stað - eins og hér má sjá.
Eins og fram hefur komið verða aðrir skemmtikraftar á árshátíðinni Úlfur Úlfur, DJ Dóra Júlía, Matti Matt, Eyþór Ingi og Stefanía Svavars. Veislustjórar verða Hugleikur Dagsson og Bylgja Babýlons.
Húsið verður opnað kl. 18:30 en hátíðin hefst kl. 19:00. Ballið að loknu borðhaldi hefst kl. 23:00. Verð aðgöngumiða á hátíðina - matur og ball - er kr. 5.990 en einnig verður hægt að kaupa miða á ballið og kostar hann kr. 2.990.