Myndlist og klassískur söngur
Sigrún Dalrós Eiríksdóttir hefur mörg járn í eldinum. Hún stundar nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA og stefnir að brautskrift í lok haustannar 2025 og einnig er hún í klassísku söngnámi við Tónlistarskólann á Akureyri.
Sigrún Dalrós er Akureyringur í húð og hár og var Glerárskóli hennar grunnskóli. Síðan lá leiðin í VMA haustið 2022. Hún rifjar upp að snemma hafi hún verið ákveðin í því að fara í Verkmenntaskólann enda hefði hún þá þegar aðeins kynnst skólanum – eða í það minnsta skólahúsunum – því móðir hennar hafi starfað um tíma við skólann og hún hafi stundum fengið að fara með henni í vinnuna. Listnámið var eitthvað sem kom að sjálfu sér enda hafði Sigrún lengi haft áhuga á að skapa. Reyndar segist hún hafa mikla ánægju af raungreinum líka og því hafi hún í hyggju að bæta slíkum áföngum við stúdentsprófið af listnáms- og hönnunarbraut og mögulega velji hún að fara í háskólanám á því sviði þegar þar að kemur. Staðreyndin sé sú að listir og stærðfræði fari prýðilega vel saman. En fyrst segist hún hafa í huga að loknu stúdentsprófi í árslok að láta þann draum rætast að fara á lýðháskóla í Svíþjóð.
Hún segir tímann á listnáms- og hönnunarbrautinni hafa verið einkar ánægjulegan. Kennararnir séu frábærir og veiti nemendum ómetanlegan stuðning. Hún segir að málunin höfði mest til sín og lokaverkefnið sem hún vinni núna að sé einmitt í málverkinu. Þar fari hún leið sem hún hefur ekki reynt áður með upphleypt málverk, eins konar lágmynd. Verkið verður til sýnis í Hofi á vordögum sem hluti af lokaverkefnasýningu nemenda á listnáms- og hönnunarbraut.
Þessa dagana er til sýnis akrílverk eftir Sigrúnu við austurinngang skólans. Hún segir að í þessu verki sé hún að pæla í framtíðinni á einn eða annan hátt en hún vilji eftirláta fólki að leggja sinn skilning í verkið, að fólk finni hjá sjálfu sér hvað verkið hafi að geyma.
Sem fyrr segir er Sigrún í söngnámi jafnframt því að stunda nám í VMA. Hún segir það nám hafa komið þannig til að hún hafi sungið í kór í Glerárkirkju undir stjórn Margrétar Árnadóttur og síðan hafi málin þróast þannig að hún hafi ákveðið að fara í klassískt söngnám hjá sömu Margréti í Tónlistarskólanum á Akureyri. Sigrún segir þetta fyrst og fremst vera hennar áhugamál, reyndar afar skemmtilegt áhugamál. Hún segist sækja tíma hjá kennara, einnig sé samsöngur og tónfræðitímar sömuleiðis. Söngurinn sé því heilmikil viðbót við fullt nám í VMA. Hluti af söngnáminu er að koma fram á tónleikum. Það gerir Sigrún ásamt öðrum söngnemendum Tónlistarskólans 20. maí nk. í Menningarhúsinu Hofi.