Fara í efni

Samstarf listnáms- og hönnunarbrautar við Salpaus í Lahti

Salpaus fjölbrautaskólinn er í Lahti í Finnlandi. Mynd: Borghildur Ína Sölvadóttir.
Salpaus fjölbrautaskólinn er í Lahti í Finnlandi. Mynd: Borghildur Ína Sölvadóttir.

Í október nk. munu nemendur listnáms- og hönnunarbrautar VMA, sem nú eru að ljúka fyrsta námsári sínu og hefja annað námsárið í haust, fara í námsferð í Salpaus framhaldsskólann í Lahti í Finnlandi og dvelja þar ytra í eina viku. Ferðin verður með stuðningi Erasmus+ styrkjaáætlunar ESB. Á vorönn 2026 koma síðan 2-3 nemendur frá Salpaus til Akureyrar og verða hér í fjórar vikur, í starfskynningum í fyrirtækjum og einnig sækja þeir kennslustundir í VMA.

Borghildur Ína Sölvadóttir og Véronique Legros, kennarar við listnáms- og hönnunarbraut VMA, heimsóttu Salpaus í byrjun apríl og kynntu sér fjölbreytta starfsemi hans. Skólinn er margfalt stærri en VMA og býður upp á fjölmargar námsbrautir sem verður áhugavert og lærdómsríkt fyrir nemendur VMA að kynna sér.

Borghildur Ína segir að listnáms- og hönnunarbrautin hafi ekki í töluverðan tíma verið í evrópskum samstarfsverkefnum en nú sé tímabært að taka upp þráðinn og þetta væntanlega samstarf við Salpaus sé mjög áhugavert. Ætlunin sé að setja upp vinnustofu fyrir nemendur þar sem áherslan verði m.a. á hönnun af ýmsum toga, miðlun og sviðslistir.

Í næstu viku kemur í heimsókn í VMA Minna Tammi, kennari í Salpaus á sviði textíl og tískuiðnaðar (textiles and fashion industry), til þess að kynna sér starfið í VMA og móta heimsókn nemenda Salpaus til Akureyrar.

Styrkur úr Rannsóknasjóði KÍ

Það er í mörg horn að líta hjá Borghildi Ínu. Hún kennir í dagskóla og einnig í hinum nýja kvöldskóla listnáms- og hönnunarbrautar, sem er núna að ljúka sínu fyrsta starfsári. Borghildur Ína segir að þetta fyrsta starfsár kvöldskólans hafi verið mikið og skemmtilegt ferðalag og mikil þekking og reynsla hafi safnast í sarpinn. Ekki verður kennt í kvöldskólanum á næsta skólaári en hins vegar munu Borghildur Ína og Björg Eiríksdóttir, sem báðar hafa kennt við kvöldskólann, taka saman skýrslu þar sem farið er yfir reynsluna af skólanum. Tekin verða viðtöl við nemendur og þeir svara spurningalistum. Niðurstöðurnar verða síðan hafðar að leiðarljósi þegar næsta skólaár kvöldskólans hefst, sem mögulega verður haustið 2026. Til þess að vinna þessa skýrslu, sem á að verða tilbúin að ári, fengu Borghildur Ína og Björg styrk úr Rannsóknasjóði KÍ. Yfirskrift verkefnisins er: Reynsla nemenda af fornámi í sjónlistum í kvöldskóla á listnáms- og hönnunarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri.