Skemmtilegt að skapa
01.03.2018
Akureyringurinn Kristján Breki Björnsson er á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar. Hann segist lengi hafa haft mikinn áhuga á myndlist. Fyrst þegar hann kom í VMA var hann þó ekki ákveðinn í því að feta þessa braut en fljótlega beindist áhuginn þangað og hann sér ekki eftir því.
Kristján rifjar upp að jafnhliða grunnskólanum hafi hann tekið námskeið í Myndlistaskólanum á Akureyri og því hafi áhugi hans á myndlist komið snemma í ljós.
Upp á vegg í VMA hangir verk Kristjáns sem hann vann í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn. Verkið, sem samanstendur af fjórum myndum, vann hann með blandaðri tækni.
"Það sem mér finnst skemmtilegast við myndlistina er að skapa, sköpunarfrelsið er lykilþáttur, frelsið til þess að túlka á mismunandi hátt. Það sem skiptir máli er að hafa ánægju af því sem maður er að gera," segir Kristján Breki.