Söngkeppni framhaldsskólanna endurvakin á Akureyri 14. apríl nk.
Söngkeppni framhaldsskólanna hefur verið endurvakin og verður haldin laugardagskvöldið 14. apríl nk. í Íþróttahöllinni á Akureyri. Hún var fyrst haldin árið 1990 og var til fjölda ára einn af stærstu viðburðum í félagslífi framhaldsskólanna. Á síðustu árum hefur vegur hennar hins vegar stöðugt legið niður á við og í fyrra var hún hreinlega ekki haldin vegna áhugaleysis.
Keppnin stóð undir nafni þegar hún var haldin á Akureyri en lakar hefur gengið að halda hana á höfuðborgarsvæðinu. Davíð Snær Jónsson, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, segir að vilji núverandi stjórnar sambandsins hafi verið að endurvekja keppnina og hafa hana á Akureyri eins og áður, því það hafi alltaf gefist best. Nemendur af t.d. höfuðborgarsvæðinu vilji fara norður og skapa stemningu í kringum keppnina. Davíð Snær segir að ætlunin sé að bjóða upp á ýmsa viðburði á Akureyri í tengslum við keppnina og að henni lokinni verði efnt til dansleiks.
Davíð Snær segir að það hafi verið á sinni stefnuskrá þegar hann tók við formennsku í SÍF að endurvekja Söngkeppnina og ánægjulegt sé að það sé að verða að veruleika. SÍF hafi auglýst eftir áhugasömum aðilum til þess að halda keppnina og hópur reynslubolta á þessu sviði með umboðsmanninn Sindra Ástmarsson í broddi fylkingar hafi tekið að sér að sjá um framkvæmd keppninnar í ár. Miðað við þann áhuga sem hann finni hjá skólunum segist hann vera þess fullviss að keppnin verði hin veglegasta í ár. Vissulega geti tekið allt að þremur árum að byggja hana upp á ný eftir þá lægð sem hún hafi verið í en engu að síður sé ekkert sem bendi til annars en að keppnin á Akureyri í næsta mánuði verði hin veglegasta.
VMA dró sig út úr Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir nokkrum árum en hyggst taka þátt í henni í ár, að sögn Ólafs Görans Ólafssonar Gros, formanns Þórdunu, og mun Embla Sól Pálsdóttir, sem sigraði í Sturtuhausnum - Söngkeppni VMA -16. nóvember sl., syngja í keppninni fyrir hönd VMA.