Stálsmíðanemarnir leystu málin
Það er kunnara en frá þurfi að segja að innan veggja VMA er mikill fjöldi hæfileikafólks, bæði í hópi starfsmanna og nemenda, sem leysir þau verkefni sem upp koma. Fyrir nokkrum vikum kom Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, með áhugavert verkefni inn á málmiðnaðarbraut sem fólst í því að hanna og smíða hanka og festingar fyrir lóð og stangir í íþróttasal skólans.
Með þessa verkbeiðni í höndunum lögðu kennararnir á málmiðnaðarbrautinni höfuðið í bleyti með stálsmíðanemum, settu grunnhugmyndirnar á blað og hófust síðan handa við smíðarnar. Og útkoman er heldur betur góð og íþróttakennarar og allir notendur íþróttasalarins eru skýjum ofar með útkomuna. Sjón er sögu ríkari, hér má sjá smíði stálsmíðanemanna sem auðvitað eru ánægðir með gott dagsverk – og mega líka vera það!