Svipmyndir af samfélagi
Í dag, þriðjudaginn 20. mars, kl. 17-17.40 halda myndlistarkonan Jeannette Castioni og leikarinn Ólafur Guðmundsson fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Svipmyndir af samfélagi.
Í fyrirlestrinum munu Jeannette og Ólafur tala um verkefnið Svipmyndir af samfélagi sem fjallar um Íslendinga af mismunandi uppruna í samhengi við skapandi upplifun þeirra af sjálfum sér og samfélaginu í gegnum leiklist, myndlist og gjörninga. Verk Jóhannesar Kjarval og Halldórs Laxness eru notuð sem hvati til sjálfskoðunar og tjáningar. Þau munu fjalla um ferlið, sýna dæmi um æfingar sem og verk. Jafnframt verða framtíðaráform Jeannette og Ólafs varðandi verkefnið kynnt en lokamarkmiðið er að gera heimildarmynd um vinnuferlið.
Fyrirlestur Jeannette og Ólafs er sá síðasti í vetur í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar í Ketilhúsinu sem er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri.
Aðgangur er ókeypis.