Hæstur á sveinsprófi í hársnyrtiiðn
Pálmar Magnússon lauk hársnyrtinámi í VMA í desember sl. en áður hafði hann lokið námssamningi sínum á hársnyrtistofunni Amber á Akureyri. Og í mars sl. lauk hann sveinsprófi í greininni og gerði sér lítið fyrir og fékk hæstu meðaleinkunn þeirra sextán sem þreyttu prófið – og fékk þetta að launum fyrir árangurinn
„Ég átti nú ekki von á því að ná þessum árangri en þetta hlýtur að verka til marks um að grunnurinn úr náminu í VMA sé góður,“ segir Pálmar þegar hann var heimsóttur á núverandi vinnustað sinn, Rakarastofu Akureyrar við Tryggvagötu á Akureyri, þar sem hann hefur starfað síðan í febrúar á sl. ári. „Já, nú er bara vinnan framundan og ég lít björtum augum fram á veginn. Ég finn mig vel í því sem ég er að gera núna, ég fann í náminu að ég er á réttri hillu í herraklippingum og skeggsnyrtingu,“ segir Pálmar og bætir við að þekking á öðrum sviðum fagsins komi sér að sjálfsögðu einnig að góðum notum.
Á sínum tíma lauk Pálmar fyrst námi í grunndeild málmiðnaðar í VMA en var að því loknu óviss hvort hann vildi halda áfram á þeirri braut. Hann hafði þó áhuga á því að fara í gullsmíði en komst ekki inn í það fag hér heima og var ekki tilbúinn á þeim tíma að fara í gullsmíðanám erlendis. Úr varð að hann hætti í skóla á Akureyri, flutti suður yfir heiðar og ákvað að prófa hársnyrtiiðn í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Þetta var árið 2012. Pálmar tók fyrstu þrjár annirnar syðra en síðan flutti hann aftur norður með fjölskyldu sinni og innritaði sig á fjórðu önn í VMA og náminu lauk hann í desember sl. og útskrifaðist þá, sem fyrr segir.
Pálmar segist hafa verið ánægður með þann grunn sem hann fékk á hársnyrtistofunni Amber á námstímanum og einnig hafi hann fengið góða kennslu í VMA. „Ég var vel undirbúinn í sveinsprófinu. VMA er að sýna að skólinn skilar góðum nemendum,“ segir Pálmar. Hann fór í skriflega sveinsprófið í VMA í febrúar sl. og sunnudaginn 13. mars tók hann síðan verklega hluta sveinsprófsins í húsakynnum Tækniskólans í Reykjavík. Verklega prófið skiptist í marga þætti; permanent, dömuklippingu, litun, herraklippingu, skeggsnyrtingu, greiðslu og dömublástur.
Hér má sjá viðtal við Pálmar á heimasíðu VMA í febrúar í fyrra.