Fara í efni

Vel heppnaður fundur um samstarf atvinnulífs og skóla í iðn- og starfsnámi

Góðar og gagnlegar umræður urðu á fundi í VMA í gær um samstarf atvinnulífs og skóla og vinnustaðaná…
Góðar og gagnlegar umræður urðu á fundi í VMA í gær um samstarf atvinnulífs og skóla og vinnustaðanám.

Fundur sem VMA stóð fyrir í gær um samstarf atvinnulífs og skóla í iðn- og starfsnámi var prýðilega sóttur og þar sköpuðust miklar og góðar umræður um verknám, vinnustaðanám, ferilbækur og samstarf vinnustaða og skóla. Ólafur Jónsson, verkefnastjóri frá Nemastofu atvinnulífsins, fór yfir ýmsar gagnlegar upplýsingar um ferilbækur og skyldur nemenda og vinnustaða/meistara í tengslum við þær.

Fjölmargt áhugavert kom fram í máli Ólafs um verknám/vinnustaðanám. Til dæmis nefndi hann að samkvæmt tölum í október á síðasta ári voru 1500 nemendur í vinnustaðanámi, þar af um 850 á höfuðborgarsvæðinu og í öðru sæti í fjölda var 181 nemandi með búsetu á Norðurlandi eystra.

Samkvæmt tölulegum upplýsingum núna í febrúar taka 134 fyrirtæki í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum nema og eru nemaplássin 351. Flest eru fyrirtækin í húsasmíði 36 og nemaplássin 93, í öðru sæti í fjölda er rafvirkjun með 20 fyrirtæki og 63 nemapláss, 15 fyrirtæki taka nema í bifvélavirkjun og eru nemaplássin 22 og í hársnyrtiiðn taka 10 fyrirtæki nema og nemaplássin eru 26.

Í gær var Ólafur frá Nemastofu atvinnulífsins með kynningar fyrir nemendur í dagskóla í verklegum greinum í VMA og einnig hitti hann nemendur í kvöldskóla í rafvirkjun og fór yfir með þeim eitt og annað sem lýtur að ferilbók og vinnustaðanámi.