Verkfall KÍ í VMA - staðan næstu daga
Nú er orðið ljóst að samningar náðust ekki í dag (21.02) og því mun verkfall Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum halda áfram. Þegar þetta er skrifað þá höfum við ekki aðrar upplýsingar en koma fram í fjölmiðlum og staðan alvarleg. Áfram bið ég fólk um að fylgjast með fréttum og á heimasíðu VMA hvað varðar framhaldið. Upplýsingar geta breyst og mun skólameistari uppfæra fréttir á heimasíðunni eftir því sem þarf.
Ýmsar upplýsingar til nemenda um skólastarfið í verkfalli:
- Skólinn verður opinn fyrir nemendur sem geta komið í húsnæði skólans á virkum dögum milli 8.30 og 15:00. Inngangar að norðan og austan verða opnir en inngangur að vestan verður lokaður. Kennslustofur í B - álmu verða opnar eftir þörfum nemenda.
- Kennarar, leiðbeinendur, náms- og starfsráðgjafar, verkefnastjóri erlendra nemenda, sviðsstjórar, áfangastjóri og aðstoðarskólameistari eru öll í Kennarasambandi Íslands og eru í verkfalli.
- Engin kennsla verður í skólanum meðan á verkfalli stendur og engum er heimilt að ganga í störf kennara. Kennarar í kvöldskóla í rafiðn og húsasmíði og í dreifnámi í matartæknanámi eru í verkfalli. Það eru einstaka stundakennarar í fjar-, dreif- og lotunámi ekki í verkfalli og hafa þeirra nemendur fengið upplýsingar um það frá kennurum. Það á t.d. við um nemendur í heilsunuddnámi og múriðn. Nemendur sem hafa skráð sig á skyndihjálparnámskeið í mars fá upplýsingar þegar nær dregur en kennari þess námskeiðs er ekki í verkfalli og námskeiðið mun fara fram á áður auglýstum tíma.
- Þau sem ekki fara í verkfall eru starfsfólk á bókasafni, stuðningsfulltrúar, iðjuþjálfi, húsumsjón, þjónustuliðar, tæknifulltrúi, starfsfólk á skrifstofu, starfsfólk í FabLab, viðburðarstjóri og skólameistari.
- Verklegar kennslustofur, íþróttasalur og kennslustofur á listnámsbraut verða lokaðar.
- Mötuneytið í Gryfju verður lokað.
- Hjúkrunarfræðingur verður til viðtals á áður auglýstum tímum.
- Bókasafnið verður opið til kl. 15:00 alla virka daga.
- Skrifstofa skólans verður opin frá 8.15-15.00 nema á föstudögum er opið til kl. 13:00.
- FabLab verður opið eins og venjulega.
- Viðburðastjóri og nemendafélagið mun skipuleggja viðburði og skrifstofur þeirra verða opnar. Fylgist með samfélagsmiðlum Þórdunu.
- Kennarar í verkfalli verða ekki í samskiptum við nemendur eða foreldra.
- Öll fjarkennsla á vegum skólans í umsjón eða á ábyrgð kennara fellur niður (fyrir utan einstaka stundakennara sem hafa upplýst nemendur sína um það).
- Inna og Moodle verður opið með því efni sem þar er í upphafi verkfalls. Engin samskipti við kennara eru í gegnum Innu eða Moodle.
- Heimavist og mötuneyti heimavistar verður opið.
Nemendur eru hvattir til að sinna náminu eftir bestu getu þótt kennsla falli niður. Einnig er lykilatriði að halda í reglubundnar venjur eins og að sofna á skynsamlegum tíma á kvöldin, vakna á morgnana til að sinna verkefnum, hreyfa sig reglulega og fleira af því taginu. Alvarlegustu afleiðingar verkfalla felast í brottfalli nemenda sem missa löngun og kraft til að sinna náminu áfram og finnst það jafnvel tilgangslaust. Hægt er að vinna gegn því með því að halda í rútínu og vera virk. Hluti af lausninni þegar samningar nást, er að ákveða hvernig nemendur ná að ljúka önninni. VMA mun leita allra leiða til að vinna upp tapaðan tíma í kennslu hjá nemendum með það að markmiði að nemendur nái áföngum annarinnar og þau sem stefna á útskrift í maí nái markmiðum sínum með það.
Sigríður Huld, skólameistari VMA