Viðurkenningar til Sigurðar Bergmanns og Kjarnafæðis-Norðlenska
Um liðna helgi fór fram árleg Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur. Að hátíðinni í ár stóð einnig Nemastofa atvinnulífsins.
Meðal annars voru veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur á sveinsprófi. Einn þeirra sem fékk silfurverðlaun afhent var Sigurður Bergmann Sigmarsson, matreiðslumaður, sem lærði í VMA. Meistari hans var Sigurgeir Kristjánsson.
Við sama tækifæri veitti Ólafur Jónsson, forstöðumaður Nemastofu atvinnulífsins, Kjarnafæði-Norðlenska viðurkenningu fyrir framlag fyrirtækisins til verknáms. Rúnar Ingi Guðjónsson gæðafulltrúi hjá fyrirtækinu, sem jafnframt er kennari í kjötiðn í VMA, veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Kjarnafæðis-Norðlenska.
VMA óskar Sigurði Bergmann og Kjarnafæði-Norðlenska til hamingju með verðskuldaðar viðurkenningar. Alla tíð hefur Kjarnafæði-Norðlenska stutt dyggilega við nám í matvælagreinum í VMA og verið til sérstakrar fyrirmyndar varðandi verknám nemenda. Fyrir það ber að þakka alveg sérstaklega.