Vorhlaup VMA 12. apríl nk. - hlaupið frá VMA
Vorhlaup VMA verður haldið í fjórða skipti fimmtudaginn 12. apríl næstkomandi. Sú breyting verður í ár frá fyrri hlaupum að rásmarkið verður við VMA en ekki við Pollinn, eins og verið hefur. Það þýðir að hlaupahringurinn verður í næsta nágrenni skólans og því lýkur síðan á sama stað og það hófst, við VMA. Hlaupaleiðin verður kynnt betur þegar nær dregur hlaupi. Hlaupið hefst frá austurinngangi Verkmenntaskólans á Akureyri kl. 17.30 og verða, eins og verið hefur, í boði 5 km og 10 km hlaupaleiðir. Að loknu hlaupi verður verðlaunaafhending í VMA.
Vegalengdir og flokkar
Sem fyrr segir verður keppt í 5 og 10 km hlaupi. Í 5 km hlaupinu verður keppt í þremur flokkum: opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km hlaupinu verður keppt í tveimur flokkum: opnum flokki og framhaldsskólaflokki.
Verðlaun
Verðlaunapeningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla og kvenna auk fjölda útdráttavinninga. Verðlaunaafhending fer fram í Gryfjunni í VMA og hefst kl. 18:30.
Skráning
Forskráning fer fram á netskraning.is og verður hún opin til kl. 17:00 á keppnisdegi. Sérskráning verður í boði fyrir framhaldsskólanema í VMA og MA til kl. 13:00 á keppnisdegi. Hægt verður að skrá sig á keppnisdegi í anddyri austurinngangs VMA frá kl. 15:30-17:00 gegn hærra gjaldi.
Verð í forskráningu:
- 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 1500 kr fyrir hlaupara í opnum flokki
Verð á keppnisdegi:
- 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 2000 kr fyrir hlaupara í opnum flokki
Afhending gagna - frítt í sund fyrir hlaupara
Mælst er til þess að hlauparar forskrái sig á netskraning.is eða á skrifstofum VMA og MA en afhending gagna og síðustu skráningar fara fram í anddyri austurinngangs VMA frá kl. 15:30-17:00 á hlaupadegi. Þátttakendur í hlaupinu fá frítt í sund í Sundlaug Akureyrar að hlaupi loknu gegn framvísun hlaupanúmers.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um hlaupið og framkvæmd þess veitir Anna Berglind Pálmadóttir á netfanginu annaberglind@vma.is
Hlaupið er öllum opið!
Vorhlaup VMA hefur verið skemmtilegur viðburður í skólastarfinu en vert er að undirstrika að hlaupið er fyrir alla, jafnt framhaldsskólanemendur á Akureyri og aðra, unga sem aldna, sem langar að spretta úr spori. Í fyrra var hlaupið tæpri viku fyrr eða 6. apríl.
Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni hefur verið ákveðið að endurvekja Söngkeppni framhaldsskólanna og verður hún laugardagskvöldið 14. apríl. Búist er við fjölda framhaldsskólanema í bæinn. Í því ljósi væri sannarlega gaman að sjá fjölda framhaldsskólanema víða að af landinu mæta til leiks í Vorhlaup VMA og hita þannig upp fyrir þá dagskrá sem sett verður upp í tengslum við Söngkeppni framhaldsskólanna.