Félagslíf
Félagslíf
Heilbrigt og þróttmikið félagslíf nemenda er hverjum skóla nauðsynlegt. Af þeim sökum kappkostar skólinn aðstyðja við það eins og kostur er og hvetja nemendur til góðra verka á þeim vettvangi.
Reynt er að hlúa að félagslífi nemenda m.a. með því að hafa félagsmálafulltrúa úr hópi kennara í hlutastarfi, stuðla að því að sem flestir meðlimir séu í nemendafélaginu, leggja húsnæði skólans undir félagsstarfsemi þegar þörf er á og aðstæður leyfa, gera ráð fyrir að húsverðir aðstoði nemendur á þessum vettvangi þegar þörf krefur og þar fram eftir götunum.
Þá hvetur skólinn nemendur og styður þá til þess að gefa út árlegt skólablað, setja upp leikrit reglulega auk þess að leggja nemendum til kórstjóra í því skyni að halda úti öflugu kórstarfi. Loks hvetur skólinn nemendur til þess að taka þátt í árlegum viðburðum á lansdvísu eins og MORFÍS, Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna og hleypur undir bagga eftir bestu getu.
Nemendafélagið
Nemendafélag VMA heitir Þórduna. Nemendum er ekki skylt að vera í félaginu en þeir eru eindregið hvattir til þess enda ýmis fríðindi innifalin og þáttaka í félagslífinu er mjög gefandi og dýrmæt reynsla.
Á vegum Þórdunu er starfrækt fjölbreytt félgaslíf sem stuðlar að bættri félagslegri vellíðan nemenda innan veggja skólans. Félagið stendur fyrir margvíslegum viðburðum og ber þar helst að nefna ýmiss konar kvöldvökur, menningarreisur, útgáfa skólablaðs, fjölbreytilega klúbba og félagsstarfssemi, auk ýmis konar annarrar starfssemi eins og t.d. málfundafélag og undirbúningsstarfssemi fyrir Gettu betur. Félagar í Þórdunu hafa ennfremur aðgang að framúrskarandi aðstöðu til íþróttaiðkunar (t.a.m. fótbolta, bandý, íshokký, frjálsa tíma o.fl.). Hápunktur skólaársins er vafalaust árshátíðin sem haldin er með viðhöfn á vorönn.
Nemendur á þriðja námsári eru auk þessa með ýmiskonar fjáröflun m.a. sjoppurekstur til að safna fyrir skólaferðalagi að vori í páskafríinu.
HefðirVerkmenntaskólinn á Akureyri tók til starfa haustið 1984. Forverar hans voru Húsmæðraskólinn á Akureyri, Framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akureyri og Iðnskólinn á Akureyri. Í Iðnskólanum var það föst venja að gefa frí 15. október sem var fyrsti leyfilegi rjúpnaveiðidagur. Þessi hefð hefur haldið velli í VMA en þó með breyttu sniði. Gefið er frí annaðhvort á mánudegi eða föstudegi u.þ.b. á miðri haustönn og heitir það ,,afmæli Helga magra” landnámsmanns í Eyjafirði. Á miðjum tíunda áratugnum vöktu jafnréttissinnar í kennarastétt athygli á því að Þórunn hyrna, kona Helga, hefði átt afmæli síðari hluta vetrar! Samsvarandi afmælisdagur Þórunnar hefur nú fest sig í sessi á miðri vorönn.
Aðrar hefðir tengjast busun nýnema við upphaf skólagöngu og dimmisjón útskriftarnema á síðasta skóladegi sínum. Þá má nefna samskipti við Menntaskólann á Akureyri, annars vegar svokallað Brunnárhlaup á haustdögum og hins vegar sameiginlegan íþróttadag á vorönn. Á vorönn er einnig haldin árshátíð VMA og í tengslum við hana eru svokallaðir opnir dagar þar sem breytt er út af venjulegu skólastarfi. Þá hefur sá siður verið innlagður að fyrsta virkan dag hvers mánaðar kallar skólameistari nemendur til fundar í Gryfju og ræðir þar mál sem hæst ber hverju sinni.