Fara í efni

Ætlar í kennarann

Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir við akrílverk sitt, Vatnaliljuna.
Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir við akrílverk sitt, Vatnaliljuna.

Strax í grunnskóla hafði Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir lagt línurnar um hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór – hún vildi verða kennari. Og þessi áform hafa ekki breyst, Hafey stefnir ótrauð á kennaranám við Háskólann á Akureyri eftir að hún lýkur stúdentsprófi af listnáms- og hönnunarbraut VMA í vor.

Hafey ólst upp á Akureyri en bjó með fjölskyldu sinni í nokkur ár á Siglufirði og var þar í efri bekkjum grunnskóla. Núna er hún aftur flutt til Akureyrar.

Hafey rifjar upp að henni hafi þótt gaman í myndmennt í grunnskóla og því hafi listnáms- og hönnunarbrautin í VMA verið ein þeirra brauta sem komu til greina. Hún segir síður en svo sjá eftir því að hafa farið í þetta nám, það hafi staðið fyllilega undir væntingum og nemendur og kennarar unnið þétt saman. Sérstaklega segir hún að ljósmyndunin hafi verið áhugaverð og hún nefnir einnig gerð skúlptúra og listasöguna.

Þessa dagana vinnur Hafey að lokaverkefni á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar sem er málverk og mögulega verður myndband hluti af verkinu, það kemur í ljós á síðari stigum. Þemað í verkinu segir Hafey að sé hennar eigin hversdagsleiki.

Nú er til sýnis í VMA akrílverk Hafeyjar, Vatnaliljan, sem er á hringlaga plötu sem hún bjó til í Fab Lab. Þetta segir hún að sé persónulegt verk.

Auk hinnar daglegu skólagöngu í VMA vinnur Hafey annað slagið með skólanum í Jysk og einnig æfir hún dans í Phoenix - pole stúdíói á Akureyri. Það er því í mörg horn að líta.