Tvöfaldur merkisdagur
Í dag, 14. mars, er tvöfaldur merkisdagur, annars vegar alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar – hinn svokallaði Pí-dagur, og hins vegar alþjóðlegur svefndagur – World Sleep Day.
Föstudagurinn 14. mars 2025 tengist tölunni pí (3,14) sem er eitt þekktasta tákn stærðfræðinnar. Þemað á þessum alþjóðlega stærðfræðidegi er stærðfræði, listir og sköpun (e. Mathematics, art, and creativity).
Í tilefni dagsins hefur stjórn Flatar (samtök stærðfræðikennara á öllum skólastigum) tekið saman þetta þemahefti með 14 mismunandi stærðfræðiverkefnum.
Alþjóðlegi svefndagurinn
Sem heilsueflandi framhaldsskóli hvetur VMA alla að huga að mikilvægi þess að svefninn sé í góðu lagi. Aldrei verður nógu oft ítrekað hversu mikilvægur góður svefn er fyrir fólk í starfi og leik – og þar eru framhaldsskólanemar sannarlega engin undantekning.
Hér er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar frá embætti landlæknis um gildi svefns og hvíldar.