Að hafa ánægða munna að metta
Marína Sigurgeirsdóttir er brautarstjóri matvælabrautar VMA. Hún var ung að árum þegar hún ákvað að læra matreiðslu. Og hún stóð við það og hefur í meira en þrjátíu ár komið að matargerð á einn eða annan hátt og miðlað þekkingu sinni og reynslu til nemenda í matvælagreinum.
„Ég var ekki gömul þegar ég ákvað að verða matreiðslukennari. Þegar ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981 var búið að leggja niður Hússtjórnarkennaraskóla Íslands í Reykjavík, sem ég stefndi í. Þess í stað bauðst mér að fara á samning í matreiðslu í Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit, þar sem ég hafði unnið sumarið áður en ég varð stúdent. Ég sló til. Bóklega námið tók ég síðan í Hótel- og veitingaskóla Íslands en þar sem ég hafði lokið stúdentsprófi þurfti ég ekki að taka eins mikið af bóklegum fögum þar og ella hefði verið. Ég man eftir því að ég þótti alveg sérstakt eintak þegar ég kom í Hótel- og veitingaskólann; að vera kvenkyns, koma af landsbyggðinni og hafa stúdentspróf. Þessi samsetning af nemanda var því sem næst óþekkt.
Ég lærði fagið á árunum 1981 til 1984. Á þeim árum var lokað á Hótel Reynihlíð yfir vetrarmánuðina og
því var ég veturinn 1982 á Hótel Esju í Reykjavík og einnig vann ég á Laugaási, sem þá var nýr
veitingastaður og þótti mjög fínn. Ég var yfirmatreiðslumaður í Hótel Reynihlíð sumarið 1984 og síðan tók
ég sveinsprófið í nóvember það ár. Sumarið eftir starfaði ég sömuleiðis í Hótel Reynihlíð.
Gerðist síðan bryti í einn vetur á Laugum í Reykjadal og hluti af þeim starfsskyldum var að kenna tíu tíma við matvælabraut sem
þá var þar mjög öflug á Laugum. Þarna steig ég mín fyrstu spor í kennslu í matvælagreinum undir styrkri stjórn
Hjördísar Stefánsdóttur, sem síðar varð brautarstjóri matvælabrautar VMA og kennir hér enn. Ég fann strax að kennslan
átti vel við mig og ég hef kennt meira og minna síðan. Til að byrja með vann ég alltaf með á sumrin sem kokkur, bæði á
Hótel Reynihlíð og Selhóteli í Mývatnssveit og sömuleiðis í Brekku í Hrísey. Þangað flutti ég með manni
mínum, Jóhannesi Áslaugssyni, sem er Hríseyingur, og þar bjuggum við í tvö ár. Ég kenndi í grunnskólanum í eynni
og vann einnig í Brekku þegar eitthvað var um að vera þar.
Sumarið 1988 vorum við í Mývatnssveit en fluttum síðan til Akureyrar og ég fór að kenna heimilisfræði við Glerárskóla.
Þar var ég í sex ár og var á þessum tíma án kennsluréttinda og því var staða mín ótrygg. Hún var
alltaf auglýst laus á vorin og því leitaði ég árlega eftir vinnu þar sem menntunin mín nýttist mér. Eftir
áramótin 1993/1994 var auglýst húsvarðarstaða og staða yfirmanns mötuneytis í Stórutjarnaskóla. Við hjónin
sóttum um og vorum ráðin. Auk þess kenndi ég heimilisfræði og einnig tók ég lítillega að mér sérkennslu. Maðurinn
minn er húsasmiður og því nýttist menntun hans og reynsla vel í húsvörslunni. Þarna vorum við í þrjú ár en
fluttum þá aftur til Akureyrar og ég réð mig á ný til starfa á mínum gamla vinnustað, Glerárskóla. Á þessum
árum á Stórutjörnum hafði ég aflað mér réttinda með því að taka uppeldis- og kennslufræði í
Háskólanum á Akureyri.“
Marína og Jóhannes eiga þrjá syni; Hjörvar 24 ára, Ásgeir 22 ára og Sævar 15 ára. Hjörvar er lærður
kjötiðnaðarmaður og starfar við þá iðngrein í Reykjavík, Ásgeir vinnur á Hótel Park-Inn í Reykjavík og
Sævar er í 10. bekk í Glerárskóla.
Uppi á eldhúsbekk í Lundarbrekku
Marína er frá Lundarbrekku í Bárðardal og hún minnist þess að strax
í æsku hafi hún átt sér þann draum að læra matreiðslu. „Alveg frá því ég man eftir mér var draumur minn
að læra matreiðslu. Ég minnist þess að hafa verið tveggja ára gömul uppi á eldhúsbekk hjá ömmu minni og nöfnu og
fengið að hræra í jólakökudeiginu hjá henni og ég á fleiri minningar frá því að hafa verið uppi á
eldhúsbekk til að fylgjast með matargerðinni. Allir mínir leikir miðuðu að því að ég ætlaði að verða
ráðskona, sem svo hét í þá daga!“
Í VMA frá 2002
Haustið 2002 réð Marína sig í hlutastöðu í VMA og starfaði til að byrja með
áfram í hlutastarfi í Glerárskóla. „Mig langaði að nýta betur mína fagmenntun og auk þess vildi ég takast á við
eitthvað nýtt. Ég kenndi í tvo mánuði í gamla Hússtjórnarskólanum og kom síðan að flutningi brautarinnar í
þetta húsnæði hér í Verkmenntaskólanum.
Þann 1. ágúst 2004 tók gildi ný námsskrá í matvælagreinum og ég tók þátt í því að
innleiða hana hér. Síðan hefur námið hér verið með sama sniði – þ.e. grunnnám, samningur og síðan fagnám.
Ný námsskrá í matvælagreinum á að taka gildi á næsta ári og að henni erum við nú að vinna með MK.
Eins og staðan er núna vantar menntað fólk í bæði matreiðslu og framreiðslu. Það er af sem áður var þegar við
upplifðum langvarandi samdrátt á þessu sviði. Helsta ástæðan fyrir því að það vantar menntað fólk í
þessar greinar er aukinn straumur ferðamanna til Íslands. Ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt og ferðamannatíminn hefur jafnframt
lengst.
Það væri vissulega gaman að geta fullmenntað kokka og þjóna hér í VMA. Til þess höfum við aðstöðu og kennara en við
þurfum hins vegar fleiri nemendur til þess að réttlætanlegt sé fjárhagslega að fullmennta þá hér. Núverandi fyrirkomulag er
þannig að nemandur taka eins árs grunnnám hér og síðan þurfa þeir að hafa verið á gildum samningi í að minnsta kosti
eitt ár áður en þeir halda áfram. Hitt er svo annað mál að það getur verið mjög gott fyrir nemendur að fá annað
sjónarhorn í námi sínu, það er þroskandi og víkkar út sjóndeildarhringinn.“
Að hafa hæfileikana í puttunum
Marína er brautarstjóri matvælabrautar VMA. „Ég reyni að vera í góðum tengslum við atvinnulífið og fylgjast með
þróun greinarinnar. Einnig er mikilvægur þáttur í starfinu að hafa faglega sýn á innihald kennslunnar og að hún sé í
takti við námsskrána. Starfið er lifandi og skemmtileg blanda af kennslu og skrifstofustarfi.“
Marína segir að reynslan sé sú að mat- og framreiðsla geti verið heldur lýjandi störf, sem kemur ekki síst til af löngum vöktum og
óreglulegum vinnutíma. Þess vegna sé afar mikilvægt að halda vel á spöðunum í menntun matreiðslu- og framreiðslufólks.
„Það er jafnan mikil eftirspurn eftir því unga fólki sem hefur farið í gegnum grunnnámið hjá okkur. Þessir krakkar hafa
dýrmæta þekkingu sem nýtist þeim vel á vinnumarkaðnum og reyndar einnig í sínu daglega lífi. Nemendur fara alltaf í
verknám í eina viku á vorönn og þessi eina vika er oft lykillinn að því að þeir sem ætla að leggja þetta fyrir sig komist
á samning. Auðvitað er það svo að margir sem fara í þetta grunnnám koma ekki til með að nýta sér þetta úti á
vinnumarkaðnum en engu að síður nýtist námið þeim örugglega vel síðar á lífsleiðinni. Eins og í öðru hafa
sumir þetta í puttunum, ef svo má segja, og það kemur snemma í ljós. Í þessu sambandi dettur mér í hug að í
fyrravetur var hér nemandi sem ætlaði sér að fara í rafiðn en uppfyllti ekki skilyrði til inngöngu þar. Hann kom til okkar með hangandi haus
enda hafði hann hreint ekki ætlað sér í þetta og hafði því ekki áhuga á þessu. Við fengum hann til þess að gefa
þessu tækifæri og hægt og rólega vaknaði áhugi nemandans á þessu og hann hreinlega blómstraði í náminu. Í dag er
hann kominn á samning og er mjög efnilegur kokkur. Þrátt fyrir að þessi nemandi kæmi hingað án þess að hann hefði nokkurn
áhuga á því til að byrja með sáum við strax að hann hafði þetta í puttunum, hérna væri hann á réttri
hillu.“
Hefur mikinn áhuga á lýðheilsu
Röskum þrjátíu árum eftir að Marína hóf að læra matreiðslu finnst henni þetta fag alltaf jafn skemmtilegt. „Já,
það finnst mér. En með tímanum hefur áhugasviðið innan þessarar greinar færst í auknum mæli yfir á
næringarfræði, hollustu og heilbrigði. Ég hef í dag brennandi áhuga á lýðheilsu og ef ég væri tvítug í dag myndi
ég trúlega læra lýðheilsufræði. Ég trúi því að ég eigi ennþá erindi í að starfa með
þessu unga og skemmtilega fólki og mér finnst jafn gaman að kenna núna og þegar ég byrjaði á því fyrir ansi mörgum
árum.“
En hvað skyldi Marína gera þegar hún kemur heim? Eldar hún matinn fyrir fjölskylduna? „Já, ég elda alltaf kvöldmatinn. Ætli
ég sé ekki eins og ítölsku mömmurnar sem finnst fátt betra en að hafa allt liðið í kringum mig í eldhúsinu og elda ofan í
það – að hafa ánægða munna að metta. Þessar stundir með fjölskyldunni við matarborðið eru dýrmætar og það er
eitt af því sem við kennum í grunnnáminu að nemendur leggi á borð og borði saman án þess að allir séu í
símanum. Í upphafi þessarar annar tókum við upp þá reglu að símarnir eru lagðir til hliðar þegar við erum að borða og
það ber öllum nemendum að virða. Nú til dags er vaxandi þörf á slíkum samverustundum þar sem fólk talar saman og verður ekki
fyrir utanaðkomandi áreiti eins og símanotkun