Draumurinn er að kenna myndlist
Á haustönn vinna nemendur á myndlistarlínu listnáms- og hönnunabrautar VMA, sem eru farnir að nálgast brautskráningu, akrýlmálverk í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur og núna á vorönninni eru nokkur verkanna sem voru unnin í áfanganun sl. haust sýnd á vegg gegnt austurinngangi skólans. Fyrsta verkið er nú þegar komið upp og vann Sigríður Björk Hafstað það. Hvert verk verður til sýnis í nokkra daga og síðan koll af kolli.
Verk Sigríðar Bjarkar kallar hún Hugarríki, sem vísar til þess, eins og hún orðar það sjálf, að þegar hún byrjaði að vinna verkið hafi kviknað ein hugmynd sem hún hafði í hyggju að vinna áfram. Síðan kviknaði önnur hugmynd og enn önnur og áður en hún vissi af urðu til margar og misjafnar hugmyndir sem hún vildi ekki sleppa frá sér en ákvað þess í stað að setja þær allar saman í eitt málverk. Sigríður orðar það svo að verkið eigi að fanga augað í margar og ólíkar áttir, því lengur sem fólki horfi á það, því meira sjái það.
Sigríður Björk segir að eftir því sem liðið hafi á námið á listnáms- og hönnunarbrautinni hafi hún haft meiri ánægju af því að mála. Málunin hafi ekki heillað hana til að byrja með en það hafi breyst.
Hún hóf nám í VMA haustið 2016 og hafði í hyggju að fara þá beint á listnámsbrautina. Mikil aðsókn gerði það að verkum að hún komst þá ekki inn en fór þess í stað í grunndeild matvæla- og ferðagreina og var fyrstu tvær annirnar í því námi. Sigríður Björk rifjar upp að það nám hafi verið sér afar gagnlegt og hún mælir með því að sem flest ungt fólk skoði matvælabrautina, það sem nemendur læri þar nýtist þeim alla tíð í sínu daglega lífi.
Haustið 2017 hóf Sigríður Björk nám á listnáms- og hönnunarbraut og hún segist strax hafa fundið sig mjög vel, þetta væri nám sem ætti vel við hana. Hún segir að í fjölskyldunni sé fjöldi listafólks, bæði myndlistarmenn (t.d. Hugleikur Dagsson og Þrándur Þórarinsson) og tónlistarfólk (nægir þar að nefna hin ríku tónlistargen í Tjarnarfólkinu í Svarfaðardal og móðursystir Sigríðar Bjarkar starfar í tónlist). Sjálf segist hún ung að árum hafa haft ánægju af því að teikna og einnig hafi söngurinn aldrei verið langt undan. Í tvígang hefur hún tekið þátt í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA og ætlar að gera það í þriðja skipti síðar í þessum mánuði.
„Ég kann afar vel við mig hér í VMA og er mjög ánægð með listnáms- og hönnunarbrautina. Bæði nemendur og kennarar á brautinni eru opnir og hjálplegir, við erum í raun eins og ein stór fjölskylda. Innan ákveðinna marka fáum við mikið frelsi til þess að skapa og það finnst mér vera frábært. Ég held að það hafi verið besta ákvörðun lífs míns að fara á þessa braut,“ segir Sigríður Björk, en hún býr á Böggvisstöðum við Dalvík og fór daglega á milli fyrstu veturna í VMA en hefur í vetur verið á Heimavist MA og VMA og kann því vel.
Stefnan er tekin á að ljúka náminu í vor og í framhaldinu segist Sigríður Björk horfa til þess að fara í kennaranám í HA. Hún segir að í framtíðinni sé draumurinn að kenna myndlist og það sé líka á stefnuskránni síðar meir að læra til einkaþjálfara. Sigríður hefur aflað sér réttinda sem yogakennari og býður upp á tíma á laugardögum í vetur í Ómi – yoga & gongsetrinu við Brekkugötu á Akureyri.