Drómi Þorvaldar Guðna Sævarssonar
Á vorönn í fyrra birtum við hér á vefnum umfjöllun um nemendur á listnámsbraut sem áttu svokallaða „mynd vikunnar“ uppi á vegg á móts við austurinngang skólans. Þessi liður hefur nú verið endurvakinn og var fyrsta myndin á vorönn hengd upp í skólanum í gær. Er það akrýlmynd Þorvaldar Guðna Sævarssonar, „Drómi“.
Þorvaldur Guðni er Eskfirðingur en hefur búið á Akureyri síðan 2009. Hann er á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar og stefnir á að ljúka námi í vor. Áður en Þorvaldur Guðni fór í listnám í VMA hafði hann stundað nám í grunndeild rafiðna í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað, en fann sig ekki í því námi og ákvað að fara allt aðra leið. Listnám á Akureyri varð fyrir valinu.
„Ég hef teiknað síðan ég man eftir mér og ég hef haft mikla ánægju af náminu. Ég hef ekki ákveðið hvort ég held áfram á þessari braut, fyrst og fremst er ég að læra þetta af því mér finnst þetta svo gaman,“ segir Þorvaldur.
Auk þess að teikna og mála hefur Þorvaldur Guðni mikinn áhuga á tónlist, fyrst og fremst dauðarokki. Hann er einn þriggja í dauðarokkshljómsveitinni Urðun, sem einbeitir sér að því að spila dauðarokk af gamla skólanum. Hinir tveir í hljómsveitinni stunda nám í MA. Auk þess að spila tónlist annarra hefur Þorvaldur Guðni fengist eilítið við að semja tónlist og hefur hann í vetur setið valáfanga í tónlist í VMA hjá Skúla Gautasyni. Áhugann á myndlist og dauðarokki sameinaði hann fyrir stuttu þegar hann tók að sér hönnun óútkominnar plötu með þungarokkshljómsveit.
Akrýlmynd Þorvaldar Guðna, sem verður uppi á vegg við austurinngang VMA næstu daga, ber heitið „Drómi“ og var unnin á haustönn í áfanganum MYL 504. Í íslenskri orðabók er orðið „drómi“ skilgreint sem „fjötur“ – sbr. að drepa úr dóma = að leysa úr fjötrum. Í mynd sinni er Þorvaldur Guðni að leika sér með fyrirbærið svefnrofalömun eða drómasýki, en um hana segir á vefnum doktor.is:
„Eins og nafnið felur í sér verður lömun á þverrákóttum vöðvum í svefnrofanum, þegar viðkomandi er um það bil að festa blund eða losa svefn. Oft er þessi lömun í nánum tengslum við draumsvefn. Svefnrofalömun kemur snögglega og varir oftast í nokkrar mínútur, hættir jafn snögglega og hún kom eða smá hverfur. Oft verður snerting eða hljóð til þess að lömunin hættir. Á meðan á svefnrofalömun stendur finnst viðkomandi að hann sé vakandi eða í svefnrofanum, hann geti ekki hreyft legg né lið og lýsir því eftir á hvernig hann hafi af fremsta megni reynt að að hreyfa sig og vakna að fullu. Stundum fylgja svefnrofalömunum ofsjónir eða ofheyrnir. Við ofheyrnir lýsir fólk því að það heyri brothljóð, skóhljóð eða jafnvel fjarlæga tónlist, sem þegar nánar er athugað finnst engin skýring á. Ofsjónum er iðulega lýst sem mannveru sem stendur við rúm eða í gættinni. Einnig er lýst köfnunartilfinningu og miklum þyngslum fyrir brjósti og jafnvel eins og dauðinn sæki að. Þessar upplifanir geta valdið mikilli hræðslu og geymast í minni þess sem fyrir þeim verður árum saman. Svefnrofalamanir eru ekki óalgengar. Oftast er enginn sjúkdómur að baki þessum einkennum. Þeirra verður meira vart ef svefnvenjur eru óreglulegar og viðkomandi er þreyttur.“
„Ég hef sjálfur upplifað þetta og „Drómi“ er ákveðin útfærsla á þeirri reynslu og því sem ég hef lesið mér til um þetta. Ég er mjög sáttur við útkomuna, að mínu mati er þessi mynd það besta sem ég hef gert í myndlistinni,“ segir Þorvaldur Guðni Sævarsson.