Kynnir sér enskukennslu og brottfall nemenda
Nina Danyel kennir ensku og stjórnmálafræðiáfanga við Richard-Riemerschmid Berufskolleg framhaldsskólann í Köln í Þýskalandi. Þessa viku hefur hún verið í heimsókn í VMA og kynnt sér kennslu hér og einnig er hún að kynna sér hvernig skólinn taki á brottfalli nemenda. Bæði skóli Ninu í Köln og VMA taka þátt í verkefni sem á ensku ber yfirskriftina Completing Secondary Education. Charlottenlund í Þrándheimi í Noregi leiðir verkefnið og auk þessa þýska skóla taka þátt í verkefninu framhaldsskólar í Danmörku, Finnlandi og Hollandi. Af hálfu VMA taka þátt í verkefninu Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari, Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari og Ásdís Birgisdóttir námsráðgjafi og eru þau á leið til Danmerkur í næstu viku og kynna sér starf í þeim danska framhaldsskóla sem tekur þátt í þessu Erasmus + KA2 samstarfsverkefni.
Richard-Riemerschmid Berufskolleg framhaldsskólinn í Köln er á margan hátt líkur VMA, aldurssamsetning nemenda er ámóta og í VMA og skólinn er einnig með blöndu bók- og verknáms. Fyrirkomulag verknámsins er hins vegar töluvert frábrugðið því sem hér þekkist.
Eins og áður segir er Nina bæði ensku- og félagsvísindakennari. Hún segir það sama uppi á teningnum í Þýskalandi og hér að enska sé fyrsta erlenda tungumálið sem þýskir nemendur læri í fimmta bekk í grunnskóla. Þó segir hún að dæmi sé um skóla sem kenni nemendum latínu í stað ensku sem fyrsta tungumálið, enda sé gerð krafa um lágmarks kunnáttu í latínu ef nemendur ætli sér til dæmis að fara í nám í læknisfræði. Spænska er almennt annað erlenda tungumálið sem nemendur í Þýskalandi taka, að sögn Ninu. Og í sumum skólum geta nemendur valið frönsku.
Þekkt er að allt sjónvarps- og kvikmyndaefni í þýsku sjónvarpi og kvikmyndahúsum þar í landi hefur lengi verið talsett á þýsku. Nina segir að þetta kunni þó að breytast á komandi árum því hún upplifi það almennt svo að yngra fólkið kjósi fremur að horfa á enskt og bandarískt sjónvarpsefni á frummálinu. Internetið segir hún að hafi breytt miklu í þessum efnum.
„Margt í skólastarfinu hér er eilítið frábrugðið því sem ég þekki úr okkar skóla í Þýskalandi en stærsti munurinn er aðbúnaður nemenda, hann er miklu betri hér. VMA hefur yfir að ráða góðu og hreinu húsnæði og aðbúnaður bæði nemenda og kennara sýnist mér almennt vera góður hér. Ég hef hvergi séð vinnuaðstöðu kennara í þýskum framhaldsskólum, sambærilega við það sem ég sé hér. Í okkar skóla fer öll vinna okkar kennara utan kennslunnar fram á okkar heimilum en ekki í skólanum, vegna þess að þar er engin aðstaða fyrir kennarana. Í fyrra kostuðum við sjálf og máluðum kennarastofuna okkar og gerðum hana huggulega vegna þess að þýska ríkið vildi ekki kosta neinu til þess. Á baðherbergjum nemenda í skólanum okkar eru allir veggir útkrotaðir og sömuleiðis innréttingar, en slíkt sér maður ekki hér. Almennt held ég að svona sé þetta í flestum ríkisskólum í Þýskalandi. En ég tek fram að námið sem slíkt hjá okkur er í háum gæðaflokki og samband nemenda og kennara er mjög gott en minna er lagt upp úr aðbúnaði nemenda og starfsfólks,“ segir Nina.
Brottfall nemenda segir Nina að sé vandamál í skólanum hennar í Köln rétt eins og í VMA. „Þetta vandamál er allsstaðar þekkt og því er lærdómsríkt að heyra hvernig tekið er á þeim málum hér. Við getum sennilega seint fundið lausn á þessu en það er áhugavert að heyra hvernig brugðist er við þessu í öðrum löndum,“ segir Nina.
Þetta er fyrsta heimsókn Ninu til Íslands og hún er hæstánægð með það sem hún hefur nú þegar séð. „Ég sagði nemendum í kennslustund hérna í VMA að mér sýndist í fljótu bragði sem þeir byggju í Paradís og þar vísaði ég til náttúrunnar, sterkra innviða samfélagsins, almennt góðs aðbúnaðar, hreinlætis og lítillar mengunar, góðrar menntunar og svo framvegis. Auðvitað veit ég að pólitíkin hér er upp og niður en Ísland er fjarri því einsdæmi í þeim efnum. Almennt held ég að Þjóðverjar viti mjög takmarkað um Ísland, þeir vita meira um hin skandinavísku löndin. Þó tengja margir Ísland við Game of Thrones,“ segir Nina Danyel.