Eyþór Ingi og Rock Paper Sisters rokkuðu í Gryfjunni
Rokkarinn Eyþór Ingi Jónsson heimsótti sinn gamla skóla í löngu frímínútunum í dag og tók lagið ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Rock Paper Sisters fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Tækifærið nýttu þeir félagarnir til þess að taka upp myndskeið til þess að nota í myndböndum við ný lög hljómsveitarinnar sem nú eru komin út á vinylplötu.
Lögin sem sveitin flutti í VMA eru á fyrstu plötu hennar, One in a million, sem kom út rafrænt um miðjan ágúst en er nú komin einnig á vinyl. Hljómsveitina skipa Eyþór Ingi söngur og gítar, Davíð Sigurgeirsson gítar og bakraddir, Þórður Sigurðarson hljómborð og bakraddir, Þorsteinn Árnason bassi og bakraddir og Jón Björn Ríkarðsson trommur.
Rock Paper Sisters fylgir nýju plötunni eftir á útgáfutónleikum á Græna hattinum á Akureyri í kvöld.