Forskráningu í Vorhlaup VMA lýkur í kvöld
Forskráningu í Vorhlaup VMA á morgun, fimmtudag, lýkur á miðnætti í kvöld á vefnum hlaup.is. Sérskráning verður hins vegar í boði fyrir framhaldsskólanema í VMA og MA til kl. 12:00 á morgun. Þá verður hægt að skrá sig á morgun kl. 16:00-17:15 í anddyri Átaks Strandgötu frá kl. 16:00-17:15 gegn hærra gjaldi og þar verða númer afhent.
Verð í forskráningu í dag fyrir báðar vegalengdir:
500 fyrir grunnskóla og framhaldsskóla (f. 1996 og seinna)
1.500 kr fyrir opinn flokk (f. 1995 og fyrr)
Verð á keppnisdegi fyrir báðar vegalengdir:
500 kr fyrir grunnskóla og framhaldsskóla (f. 1996 og seinna)
2.000 kr fyrir opinn flokk (f. 1995 og fyrr)
Hlaupið verður í lögformlegri braut – sömu braut og notast er við í hinu árlega Akureyrarhlaupi og er nákvæmlega mæld og viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands. Veðurspáin er frábær þannig að ekkert bendir til annars en að aðstæður verði eins og best verður á kosið.
Ræst verður við Menningarhúsið Hof kl. 17.30 á morgun, fimmtudaginn 14. apríl, og verða í boði bæði 5 km og 10 km hlaupaleiðir. Keppt verður í þremur flokkum – karla og kvenna - í 5 km hlaupinu: opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km verður keppt í opnum flokki og framhaldsskólaflokki, karla og kvenna. Tímataka verður með flögum, sem gefur nákvæmari tíma. Hér má sjá legu brautarinnar. Allar frekari upplýsingar um hlaupið er að finna á vefnum hlaup.is.
Verðlaunapeningar verða veittir fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla og kvenna auk fjölda útdráttarverðlauna.
Að hlaupi loknu gefst hlaupurum kostur á því að nýta sér búningsklefa Átaks heilsuræktar og að bregða sér í heita pottinn og/eða ísbað.