Fráleitt að kenna fólki um að smita aðra
Þann 29. október sl. fékk Bryndís Ann McCormick, nemandi á fjölgreina- og sjúkraliðabraut VMA, staðfestingu á því að hún hefði greinst með covid 19. Hún segir að það hafi ekki komið sér alveg í opna skjöldu því móðurbróðir hennar frá Reykjavík, sem hún og aðrir í fjölskyldunni höfðu verið í nánu sambandi við dagana á undan, hafði greinst jákvæður daginn áður. Hann kom til Akureyrar vegna fráfalls föður síns og afa Bryndísar en var einkennalaus þegar hann kom norður og vissi ekki af því að hann hefði smitast af veirunni og væri smitberi.
Allir á heimilinu veiktust
„Frændi minn kom norður á föstudegi og fór að finna fyrir einkennum á laugardagskvöldi. Á miðvikudegi í vikunni þar á eftir fór ég að finna fyrir einkennum og var þá þegar komin í sóttkví, eins og aðrir á heimilinu. Öll fjölskyldan fékk covid; foreldrar mínir, amma, litli bróðir og kærastinn minn. Ég fann fyrst fyrir særindum í hálsi og vissi þá strax hvað klukkan sló vegna þess að frændi minn hafði greinst með covid 19 og einnig var búið að greina mömmu og ömmu með veiruna.
Við vitum ekki hvernig smitið barst á milli okkar en nálægðin er auðvitað mikil og við snertum sömu hlutina á heimilinu. Við þessar aðstæður vorum við í fjölskyldunni líka mjög náin og snertingin milli okkar allra meiri en ella.
Í þeim aðstæðum að hafa á stuttum tíma misst afa minn og veikst af covid 19 missti ég þó aldrei móðinn. Þvert á móti hugsaði ég með mér, í ljósi þeirra orða hjúkrunarfræðings sem hafði samband við mig að sjúkdómseinkenni gætu komið í bylgjum, að best væri að nýta tímann vel til þess að læra þegar ég finndi ekki fyrir miklum einkennum. Það gekk eftir eins og hjúkrunarfræðingurinn hafði sagt mér, að einkennin komu í bylgjum. En almennt voru þau frekar væg. Ég fékk smá hita í nokkra daga, fann fyrir lystarleysi og ógleði og þrýstingi í höfði en fékk aldrei dæmigerð kvefeinkenni, hósta eða nefrennsli, og fann ekki fyrir óþægindum í lungum. Ég tapaði reyndar lyktar- og bragðskyni nokkrum dögum eftir að ég var greind. Ég prófaði að bíta í sítrónu en fann ekkert bragð! En þetta er hægt og rólega að koma til baka og núna er ég farin að finna smá mun á söltu og sætu.“
Tíu daga einangrun
Vegna þess að sjúkdómseinkennin hjá Bryndísi voru frekar væg þurfti hún ekki að vera lengur í einangrun en tíu daga. Hún losnaði því úr einangrun í þessari viku en aðrir í fjölskyldu Bryndísar á Akureyri losna úr henni í dag, föstudag, og segir hún að þau hafi öll sloppið án alvarlegra veikinda.
Bryndís segir að eftir að frændi hennar fékk staðfestingu á því að hann væri með veiruna hafi hann farið aftur suður. Hann hafi síðan veikst illa og verið lagður inn á Landspítalann þar sem hann var í þrjá sólarhringa á gjörgæsludeild. Hann sé þó sem betur kominn af gjörgæslu og sé á hægum batavegi á legudeild Landspítalans.
Einangrunin segir Bryndís að hafi ekki reynst sér erfið því allir á heimilinu voru í sömu stöðu og gátu því verið saman allan tímann. „Þess vegna var ekkert herbergi í húsinu sem við getum kallað einangrunarherbergi, húsið var allt í einangrun. Ég get hins vegar ímyndað mér að það hefði verið mjög erfitt ef ég hefði þurft að vera einangruð í herberginu mínu allan þennan tíma,“ segir Bryndís.
Aftur í skólann
Fyrstu verklegu kennslustundina í sjúkraliðanáminu í VMA eftir að hafa veikst af covid 19 sótti Bryndís í gær. „Ég viðurkenni að ég hugsaði með mér að kannski yrðu samnnemendur mínir og kennarar hálf smeykir við mig og óttuðust að ég myndi smita þau. Ég hringdi því í Ingu kennarann minn á sjúkraliðabrautinni og bar undir hana hvort hún teldi að einhverjir væru hræddir við að umgangast mig. Hún sagði svo ekki vera, enda er það auðvitað svo að ég væri ekki laus úr einangruninni ef einhver hætta væri á því að ég væri smitberi. Ég fékk skýr fyrirmæli frá heilbrigðisstarfsfólki sem var í sambandi við mig um hvað ég þyrfti að gera þegar ég færi út af heimilinu. Vegna þess að aðrir á heimilinu eru ekki lausir úr einangrun þurfti ég, áður en ég fór í skólann, að fara í sturtu og hrein föt, sem er ákveðin varúðarráðstöfun sem mun gilda fyrstu dagana eftir að allir á heimilinu losna úr einangrun.“
Einstök umhyggja heilbrigðisstarfsfólks
Bryndis vill geta þess að umhyggja heilbrigðisstarfsfólks í veikindum hennar og annarra í fjölskyldunni hafi verið einstök. „Eftirlitið var til mikillar fyrirmyndar. Þrátt fyrir að ég væri ekki mikið veik fékk ég fjögur eða fimm símtöl til þess að fylgjast með líðan mína. Amma fékk daglegar upphringingar og vel var fylgst með litla bróður mínum, sem er tíu ára, frá Barnaspítala Hringsins. Í náminu á sjúkraliðabrautinni hef ég fengið smá innsýn í störf heilbrigðisstarfsfólks og ég sagði samnemendum mínum á facebook að eftir að hafa upplifað þetta sjálf er ég ólýsanlega þakklát fyrir heilbrigðiskerfið okkar,“ segir Bryndís.
Fram hefur komið að margir óttist að fá veiruna og ekki síður að smita aðra. „Í okkar tilfelli kom frændi minn inn á heimilið og vissi ekki af því að hann hefði smitast af veirunni. Ég kenni honum alls ekki um að við veiktumst og almennt er algjörlega fráleitt að kenna fólki um að smita aðra. Ekki nokkur maður ætlar sér að smita aðra. Þetta bara gerist þrátt fyrir að fólk geri allar nauðsynlegar ráðstafanir og við vitum öll núna, sem við höfðum ekki nægilega vitneskju um áður, að andlitsgrímurnar eru mikilvæg vörn í því að hindra smit.“
Stúdent í desember – áfram í sjúkraliðanáminu
Bryndís lýkur stúdentsprófi af fjölgreinabraut VMA í desember nk. en mun halda áfram námi sínu á sjúkraliðabraut VMA næstu þrjár annir.
Að loknum grunnskóla fór Bryndís í MA og hafði lokið þar fimm önnum þegar hún tók sér hlé frá námi í lok árs 2018. Haustið 2019 fór hún síðan í VMA og er því núna að ljúka sinni þriðju önn þar. Bryndísi vantaði ekki mikið upp á að ljúka stúdentsprófinu í MA og er nú á lokasprettinum í VMA til stúdentsprófs. „Þegar ég hætti í MA var ég ekki að finna mig nógu vel í náminu og ákvað að taka mér hvíld og finna betur út hvar ég ætti heima. Ég sé alls ekki eftir því. Núna er ég að læra það sem mig virkilega langaði að læra,“ segir Bryndís.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mannslíkamanum og að hjálpa fólki. Ég hafði í hyggju að fara í hjúkrunarfræði í háskóla að loknu stúdentsprófi. Þegar ég síðan fór í VMA valdi ég að taka nokkrar námsgreinar sem ég hafði áhuga á og áttaði mig á því að þær væru allar hluti af náminu á sjúkraliðabrautinni. Ég fór því að skoða málið betur og ákvað í framhaldinu að halda áfram eftir stúdentspróf og klára sjúkraliðanámið líka og í því verð ég næstu þrjár annir. Hvað ég síðan geri eftir það kemur í ljós. Möguleikarnir eru miklir, sjúkraliðanámið eitt og sér gefur starfsréttindi og er um leið góður grunnur fyrir fjölbreytt háskólanám á sviði heilbrigðisvísinda. Áhugi minn er á þessu sviði en það kemur í ljós eftir að sjúkraliðanáminu lýkur hvaða leið ég vel,“ segir Bryndís Ann McCormick.