Gekk ótrúlega vel
Íris Birna Kristjánsdóttir þreytti sl. laugardag sveinspróf í hársnyrtiiðn og stóð sig mjög vel. Hún tók í september sl. bóklega hluta sveinsprófsins og fékk þá m.a. hæstu einkunn í iðnfræði en sl. laugardag var komið að verklega hlutanum.
„Prófið gekk ótrúlega vel,“ segir Íris Birna, sem brautskráðist úr námi sínu í hársnyrtiiðn í VMA sl. vor. Hér sést hún með samnemendum sínum og kennurum í námsferð til Malaga (er önnur frá hægri). Hópurinn náði að fara utan áður en kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðinni.
„Ég tók verklega prófið í VMA - var í því frá klukkan níu um morguninn til klukkan fimm. Ég var ein í prófinu hérna fyrir norðan og það var bara fínt. Prófað var í blæstri, permanenti, litun og klippingu, herraklippingu, skeggsnyrtingu og greiðslu. Ákveðinn tími var ætlaður fyrir hvern prófhluta. Ég vissi fyrirfram hvernig prófið yrði og því var verkefnið í aðdraganda þess að æfa mig vel,“ segir Íris Birna sem fékk strax niðurstöðurnar úr sveinsprófinu. „Þetta gekk mjög vel, ég náði öllu og fékk bara góðar einkunnir.“
Íris Birna starfar á hársnyrtistofunni Zone á Akureyri og hún hyggst gera það áfram. „Svo kemur bara í ljós hvað ég geri. Ég hef áhuga á því að ná mér einhvern tímann í meistararéttindi, það er bara spurning hvenær ég geri það,“ segir Íris Birna.
„Ég hafði prófað ýmislegt og fannst ég alltaf vera á vitlausri hillu – þar til ég fór í hársnyrtiiðn í VMA. Ég fór í MA eftir grunnskóla en hætti þar og fór að vinna. Síðan ákvað ég að skella mér í þetta nám í VMA árið 2016 og sé ekki eftir því. Ég fór m.a. í vinnustaðanám til Noregs og það var frábær reynsla sem ég mæli með að nemendur nýti sér ef þeim býðst slíkt,“ segir Íris Birna.