Gerður Björg og Sigþór Árni fá styrki úr Hvatningarsjóði Kviku
Tólf nemendur á framhalds- og háskólastigi hljóta styrk úr Hvatningarsjóði Kviku fyrir árið 2020, þar af eru tveir nemendur við Verkmenntaskólann á Akureyri; Gerður Björg Harðardóttir, nemandi í vélstjórn og Sigþór Árni Heimisson, nemandi í húsasmíði.
Kvika banki hf. hefur undanfarin ár veitt námsstyrki úr Hvatningarsjóði Kviku. Um er að ræða þrennskonar styrki; úr Hvatningarsjóði iðnnema, Hvatningarsjóði kennaranema og FrumkvöðlaAuði.
Hvatningarsjóður iðnnema er samstarfsverkefni Kviku og Samtaka iðnaðarins og er markmið hans að styrkja og efla umræðu um mikilvægi iðn- og starfsnáms fyrir samfélagið. Umsóknarfrestur um styrki úr sjóðnum rann út í apríl sl. og það kom bæði Gerði Björgu og Sigþóri Árna ánægjulega á óvart þegar þau fengu tilkynningu um að þau hefðu hlotið styrki úr sjóðnum.
Gerður Björg
Gerður Björg Harðardóttir er nítján ára gömul, frá Einarsstöðum í Reykjadal. „Ég er í B-stigi í vélstjórninni. Ég fór í grunndeild málmiðnaðar og ákvað síðan í framhaldinu að fara í vélstjórn og er núna að ljúka fimmtu önninni í það heila í skólanum, þar af þriðju í vélstjórninni. Það einhvern veginn kom ekkert annað til greina en að fara í þetta nám. Frá blautu barnsbeini hef ég í sveitinni verið í kringum vélar og heillaðist af því. Ég sé ekki eftir því að hafa farið í þetta nám. Þetta er í senn skemmtilegt og krefjandi. Ég stefni að því að ljúka öllu vélstjórnarnáminu í VMA og síðan kemur vel til greina að fara áfram í háskólanám, það kemur í ljós. Ég vann sl. sumar í Laxárvirkjun og kynntist þá einu og öðru sem tengist náminu og mér fannst það mjög skemmtilegt. Ég get vel hugsað mér slíkan starfsvettvang í framtíðinni,“ segir Gerður Björg.
„Vélstjórnarnámið er mjög fjölbreytt og tekur til margra þátta. Um leið og við ljúkum vélstjórninni tökum við einnig stúdentspróf og stöndum því vel að vígi ef við höfum áhuga á frekara námi. Þetta er góð blanda af verklegu og bóklegu námi og það finnst mér vera mjög mikilvægt.“
Gerður segist hafa verið mjög glöð að fá styrkinn frá Kviku. „Ég bjóst ekki við þessu því ég veit að svo margir sækja um. En styrkurinn mun koma sér mjög vel fyrir mig til að kosta vélstjórnarnámið og ekki síður ef ég ákveð að fara í frekara nám,“ segir Gerður Björg.
Sigþór Árni
Sigþór Árni Heimisson er 27 ára Akureyringur. Hann hefur frá unga aldri verið afar virkur í íþróttum, spilaði lengi handbolta með KA og Akureyri en hefur nú lagt keppnisskóna á hilluna og einbeitir þess í stað að þjálfun. Sigþór Árni er aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í KA/Þór í handbolta og þjálfar auk þess þriðja flokk KA/Þórs.
Að grunnskóla loknum fór Sigþór í MA og lauk þaðan stúdentsprófi af náttúrufræðibraut. Að því loknu lá leið Sigþórs út á vinnumarkaðinn. Hann starfaði í tvö ár á leikskóla en innritaðist síðan í kennaranám í Háskólanum á Akureyri. Sigþór segist ekki hafa fundið neistann í náminu og hætti að lokinni hálfri annarri önn. Tók þá u-beygju og innritaði sig í húsasmíði í VMA. Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni og það á sannarlega við um Sigþór því forfeður hans eru smiðir. Faðir Sigþórs, Heimir Rögnvaldsson, og bræður hans eiga og reka Trésmiðjuna Ösp á Akureyri. Til hliðar við námið hefur Sigþór starfað hjá Ösp og hefur þegar lokið tilskildum samningstíma til sveinsprófs. Skólahlutanum lýkur Sigþór að óbreyttu við lok þessarar annar og þá er leiðin til sveinsþrófs greið á nýju ári.
En hvað kom til að Sigþór sendi inn umsókn í Hvatningarsjóð Kviku? Hann segir að Bragi Óskarsson, kennari við byggingadeildina í VMA, hafi bent honum á þennan möguleika og hann hafi látið slag standa og sótt um, rétt áður en umsóknarfresturinn var liðinn í apríl sl. „Ég var eiginlega búinn að steingleyma því að ég hefði sótt um þegar ég fékk tilkynninguna um að ég hafi hlotið styrk úr sjóðnum. Það var sérlega ánægjulegt. Þessir peningar nýtast mér sannarlega mjög vel til þess að ljúka náminu og ekki síður ef ég fer í frekara nám. Ég íhuga það alvarlega að halda áfram í námi og fara í bygggingartæknifræði eða byggingarfræði í Danmörku,“ segir Sigþór.