Gestkvæmt í VMA
VMA tekur þátt í ýmsum samstarfsverkefnum með erlendum skólum og stofnunum. Í liðinni viku voru hér í heimsókn
fulltrúar frá Charlottenlund Videregående Skole í Þrándheimi í Noregi og í dag hefst heimsókn fulltrúa frá skólum
í Finnlandi og Eistlandi.
Charlottenlund og VMA fengu styrki til tveggja til þriggja ára til að senda kennara og nemendur milli skólanna – annar styrkurinn tengist hársnyrti- og
listnámi og hinn tengist tækninámi. Styrkirnir eru m.a. hugsaðir til þess að kynnast því sem gert er í sambærilegum skólum
í Noregi og á Íslandi í því skyni að fá nýjar hugmyndir og víkka út sjóndeildarhringinn. Einnig fá nemendur
tækifæri til þess að nýta sér mismunandi kennslubúnað sem er til staðar í skólunum.
Í dag kemur síðan í heimsókn í VMA níu manna hópur frá skólum í Finnlandi og Eistlandi, sem fulltrúar frá VMA
hafa þegar heimsótt, þar sem horft er til náms í bifvélavirkjun. Gestirnir verða á Akureyri fram á föstudag og munu á þeim
tíma m.a. heimsækja nokkur fyrirtæki á Akureyri, auk þess að sjá sig um í nágrenni Akureyrar.