Góður grunnur fyrir háskólanám
„Margir í kringum mig tengjast viðskiptalífinu og ég smitaðist af þeim áhuga. Þess vegna valdi ég að fara á viðskipta- og hagfræðibraut í VMA. Námið hefur kennt mér margt, t.d. ýmislegt er lýtur að sköttum og viðskiptum almennt. Núna geri ég t.d. mína skattaskýrslu sjálfur sem ég var ekki fær um áður. Mér finnst námið mjög gott, frábærir kennarar og margar námsgreinar sem nýtast mjög vel. Ég vil til dæmis nefna að á fyrstu önn vorum við í fjármálalæsi sem ég held að sé einn mikilvægasti áfangi sem ég hef farið í og í rauninni væri öllum hollt að taka hann,“ segir Davíð Már Almarsson, nemandi á viðskipta- og hagfræðibraut VMA.
„Stefnan er að ljúka náminu í vor og í framhaldinu að fara í viðskipta- og tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík næsta haust. Í tíunda bekk hafði ég sannast sagna ekki mikinn áhuga á námi en ákvað engu að síður að fara í framhaldsskóla og VMA varð fyrir valinu. Eftir að ég byrjaði á viðskipta- og hagfræðibrautinni kviknaði áhugi minn á námi, þetta var eittvað sem höfðaði til mín og ég sá virkilega tilgang í að læra,“ segir Davíð Már.
Utan skólans segist Davíð Már æfa hnefaleika og það hafi hann gert í mörg ár. Um tíma keppti hann líka en núna lætur hann æfingarnar duga. Þær eru á vegum hnefaleikadeildar Íþróttafélagsins Þórs og fara fram í gamla íþróttahúsinu við Laugagötu. „Ég hef verið í hnefaleikum í mörg ár, líklega síðan í fimmta bekk í grunnskóla. Ég bjó fyrir sunnan þegar ég byrjaði í þessu og hélt áfram eftir að ég kom norður,“ segir Davíð Már.