Tveir VMA-nemar valdir til þátttöku í Nordic light
Úlfur Logason og Sandra Wanda Walankiewicz, nemendur á fyrsta ári á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA, hafa verið valin til þess að taka þátt í sjónlistahluta samnorrænu menningarhátíðarinnar Nordic light næsta sumar sem fer fram víða á Norðurlöndum.
Úlfur og Sandra eru í hópi þeirra 75 ungmenna af öllum Norðurlöndum sem valnefnd valdi úr hópi um 500 umsækjenda. Af þessum 75 ungmennum koma 17 frá Íslandi – þar af þrjú af Norðurlandi, Úlfur og Sandra frá Akureyri og Jón Ægir Jónsson úr Langadal. Úlfur og Sandra eru fædd 1997 en Jón Ægir árið 1998.
Menningarhátíðin er fyrir ungt fólk á aldrinum 14-17 ára og ber nafnið Nordic light 2014. Hátíðin er umfangsmesta menningarhátið fyrir ungmenni sem haldin hefur verið á Norðurlöndum og langstærsta menningarverkefni fyrir ungt fólk sem Norræni Menningarsjóðurinn og þar með Norræna ráðherranefndin hafa staðið að. Hátíðin verður "The Nordic Cultural Event of the Year" fyrir 2014. Hátíðin byggir á fimm listgreinum; dansi, sjónlist, leiklist, sirkus og tónlist.
Nordic light hefst 20. júlí og lýkur 4. ágúst. Ungmennunum 75 verður skipt í 5 15 manna listhópa; leiklist, dans, sirkus, sjónlist og tónlist. Hver hópur ferðast svo með sínum aðallistamanni og svo sínum fararstjóra og þann 20. júlí 2014 hefst hátíðin með vinnustofum í fimm löndum. Í hverri vinnustofu eru einnig 2-3 þarlendir listamenn sem vinna með hópnum og á hverjum stað er 15 ungum skapandi heimamönnum boðið að taka þátt í þeirri vinnustofu. Allir listamennirnir eru "alvöru", starfandi og vel þekktir einstaklingar frá Norðurlöndunum.
Ein slík vinnustofa verður einmitt hér norðan heiða því Verksmiðjan á Hjalteyri verður miðpunktur sjónlistaverkefnisins 20.-22. júlí, undir stjórn Örnu Valsdóttur, kennara við listnámsbraut VMA, en hópurinn kemur til með að hafa vinnuaðstöðu í VMA.
Frá Akureyri fer sjónlistahópurinn, þ.e. einstaklingarnir fimmtán, í þeim hópi Úlfur Logason og Sandra Wanda Walankiewicz, sem koma allsstaðar að af Norðurlöndum, til Mariehamn á Álandseyjum og þaðan til Pärnu í Eistlandi og loks fer hópurinn á lokaáfangastaðinn í Joensuu í Finnlandi þann 29. júlí þar sem allar listgreinarnar sameinast á lokahátíð.
Sandra Wanda Walankiewicz hóf nám á listnámsbraut VMA sl. haust og kann náminu ákaflega vel. Með umsókn um þáttöku í Nordic Light segist hún hafa sent myndband þar sem hún hafi meðal annars unnið með laufblöð og birtu. Sandra er fædd í Póllandi en flutti til Íslands fyrir sex árum og kann vel við sig hér. Hún segist vart geta beðið eftir að taka þátt í Nordic light næsta sumar, þetta sé frábært tækifæri og hún hlakki mikið til þess að kynnast krökkum frá öðrum löndum með sama áhugamál.
Úlfur Logason hefur þrátt fyrir ungan aldur lengi fengist við listsköpun af ýmsum toga. Með umsókn sinni um þátttöku í Nordic light sendi hann bæði myndband og málverk. Að vonum er hann, eins og Sandra, fullur tilhlökkunar að taka þátt í þessari viðamiklu menningarhátíð næsta sumar. Úlfur hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri sl. haust en færði sig upp á Eyrarlandsholtið núna í byrjun vorannar og hóf nám á listnámsbraut VMA.