Samfélagsmiðlar eru aðal þekkingaruppsprettan
Almenn þekking nemenda á þjóðmálum fer minnkandi með hverju árinu. Svo virðist sem æ færri nemendur fylgist reglulega með fréttatímum sjónvarpsstöðva og aðal upplýsingaveita nemenda eru samfélagsmiðlarnir, ekki síst Facebook. Þetta er mat Þorsteins Krüger, sagnfræði- og samfélagsfræðikennara í VMA.
Þorsteinn Krüger kennir sögu, stjórnmálafræði og lífsleikni. Hann hefur kennt samtals í 17 ár, í VMA hefur hann kennt síðan 2005 en áður hafði hann stundað kennslu um níu ára skeið á Húsavík.
„Þekking nemenda á samtímamálum er mjög misjöfn. Sumir nemendur virðast ekki lesa blöðin eða fylgjast með fréttum en aðrir, fyrst og fremst þeir nemendur sem eru komnir lengra í námi, gera það og eru nokkuð vel heima í umræðum dagsins. Mér virðist yngri nemendur almennt ekki vel að sér í pólitík eða öðru sem gerist frá degi til dags. Það er greinilegt að lestur dagblaða og áhorf á sjónvarpsfréttir minnkar með hverju ári. Ástæðan fyrir þessu er væntanlega fyrst og fremst sú að það eru fleiri leiðir en áður til þess að nálgast upplýsingar. Margar af þeim fréttum sem nemendur sjá hafa þeir ekki séð í dagblöðum eða sjónvarpsfréttum heldur í gegnum samfélagsmiðla, t.d. Facebook þar sem einhver hefur póstað fréttum af netmiðlunum. Á þeim sautján árum sem ég hef kennt finnst mér að almennri þekkingu á þjóðmálum og því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi hafi hrakað. Ég verð var við að það er alveg hending ef nemendur meðtaka fréttir úr fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Tölvan hefur tekið yfir sem upplýsingaveita og þá fyrst og fremst samfélagsmiðlarnir,“ segir Þorsteinn.
Ekki er langt síðan margir nemendur höfðu með sér fartölvur í skólann en áberandi er að þeim hefur fækkað mjög og snjallsíminn hefur komið í þeirra stað. Þorsteinn segir að á vissan hátt séu sumir nemendur haldnir einskonar snjallsímafíkn, þeir láti símann sjaldan frá sér. „Ég hef heyrt í mörgum kollegum mínum og þetta virðist alls staðar vera vandamál, bæði í framhaldsskólum og háskólum. Þær raddir heyrast að allir skólar ættu að taka sig saman og hreinlega banna símanotkun í kennslustundum. Það sem hins vegar flækir málið er að sumir nemendur nota símana sína á skynsamlegan hátt í kennslustundum með því til dæmis að taka niður glósur á þá. Hins vegar eru þeir fleiri sem misnota símana í kennslustundum. Ég vil þó ekki segja að farsímanotkun trufli kennsluna en hins vegar sé ég að margir af þeim nemendum sem eru með fingurna á símanum í kennslustundum eru víðs fjarri, ef svo má segja. Við ræðum við nemendur um að símanotkun þeirra geti verið mjög truflandi og dreifi athygli þeirra sjálfra. En að öðru leyti höfðum við til almennrar skynsemi nemenda um að láta símana vera þegar þeir eru í kennslustundum. Við höfum ekki gert á því vísindalega úttekt en sjáum þó greinilega að þeim sem eru mikið í símanum í kennslustundum gengur verr í náminu en hinum sem setja símana til hliðar og fylgjast með því sem fram fer. Þetta segir okkur að símanotkun er ákveðið vandamál og það er greinilega vaxandi.“
Eftir sautján ára kennslu segir Þorsteinn að hann hafi alltaf jafn gaman af því að kenna ungu fólki. „Ekki síst finnst mér gaman þegar tekst að kveikja áhuga nemenda. Bestu stundirnar eru þegar maður spjallar við nemendur um eitthvað sem þeir vissu ekki áður, það kviknar neisti í augum og allt dettur í dúnalogn. Þá er skemmtilegst að kenna! Ég neita því ekki að það er töluvert erfiðara nú en hér á árum áður að ná athygli og hlustun nemenda í langan tíma. Þess vegna er svo mikilvægt, að mínu mati, að virkja nemendur meira í tímum og kennarinn sé meira í hlutverki leiðbeinanda eða verkstjóra. Ég hef markvisst breytt kennsluháttum í þessa veru, þ.e. að láta nemendur vinna meira sjálfa, og jafnframt hef ég stytt fyrirlestra. Það hefur mér fundist gefast vel.“