Norðurorka styrkir Leikfélag VMA og Vorhlaup VMA
Við úthlutun samfélagsstyrkja Norðurorku í Listasafni Akureyrar - Ketilhúsinu í gær var tilkynnt að Norðurorka styrki annars vegar Leikfélag VMA vegna uppsetningar félagsins á Tröllum, sem verður frumsýnt í Hofi í næsta mánuði, og hins vegar Vorhlaup VMA, sem hefur unnið sér sess í skólastarfinu og sem fastur liður í dagskrá skokkara á Akureyri. Styrkupphæðin til Leikfélags VMA er kr. 100.000 og sama upphæð til Vorhlaups VMA.
Óhætt er að segja að þessir fjármunir nýtist báðum verkefnum vel og vill VMA þakka Norðurorku innilega fyrir þennan góðan stuðning.
Vorhlaup VMA verður haldið miðvikudaginn 1. apríl nk., í síðustu kennsluvikunni fyrir páskaleyfi - nánar um það þegar nær dregur. Hér má sjá umfjöllun um síðasta Vorhlaup VMA, sem var haldið 3. apríl 2019.
Norðurorka afhenti fjölmarga styrki í gær til áhugaverðra verkefna. Hér er mynd sem var tekin við lok athafnarinnar af þeim sem veittu styrkjunum viðtöku. Fulltrúar Leikfélags VMA, Elísabeth Ása Eggerz, formaður félagsins, og Örn Smári Jónsson, markaðsstjóri, sem tóku við styrknum fyrir hönd félagsins, voru tímabundin og gátu ekki beðið eftir hópmyndatökunni, enda þurftu þau að hraða sér á æfingu á Tröllum!
Fyrir hönd Vorhlaups VMA tóku við styrknum kennararnir Anna Berglind Pálmadóttir, Valgerður Dögg Oddudóttir Jónsdóttir og Benedikt Barðason, skólameistari.