Fara í efni

Stundatöflumeistararnir í árlegu jóla- og nýárspúsli

Áfangastjórarnir Benedikt (t.v.) og Garðar.
Áfangastjórarnir Benedikt (t.v.) og Garðar.
Áfangastjórarnir Garðar Lárusson og Benedikt Barðason auk Sigríðar Huldar Jónsdóttur aðstoðarskólameistara vinna hörðum höndum að því að vinna stundaskrá fyrir hverja önn. Sem er ekki lítið verk því púsla þarf saman um þrjúhundruð áföngum inn í töfluna og hóparnir eru ríflega fimm hundruð, þar sem í mörgum áföngum eru fleiri en einn hópur. Garðar og Benedikt viðurkenna fúslega að oft sé þrautin þyngri að koma stundatöflunum heim og saman en þetta sé þó ögrandi og skemmtileg vinna.

Áfangastjórarnir Garðar Lárusson og Benedikt Barðason auk Sigríðar Huldar Jónsdóttur aðstoðarskólameistara vinna hörðum höndum að því að vinna stundaskrá fyrir hverja önn. Sem er ekki lítið verk því púsla þarf saman um þrjúhundruð áföngum inn í töfluna og hóparnir eru ríflega fimm hundruð, þar sem í mörgum áföngum eru fleiri en einn hópur. Garðar og Benedikt viðurkenna fúslega að oft sé þrautin þyngri að koma stundatöflunum heim og saman en þetta þó sé ögrandi og skemmtileg vinna.

Skólastarfið er smám saman að skríða af stað eftir jólaleyfi. Nemendur fá stundatöflur sínar afhentar á morgun og kennsla hefst síðan á miðvikudagsmorgun. Áfangastjórar VMA, Garðar og Benedikt, hafa frá því fyrir jól unnið að því að koma saman stundatöflum. Þeir unnu stíft milli jóla og nýárs og tóku sér frí á gamlárs- og nýársdag. Voru síðan mættir 2. janúar til þess að leggja lokahönd á verkið. Nærri lætur að nemendur í dagskóla séu um 1100 á vorönn og nemendatöflurnar eru jafn margar og nemendurnir.

Garðar: Stundatöflurnar þurfa að liggja fyrir þegar kennarar mæta á mánudaginn (í dag) og síðan þurfa nemendatöflurnar að vera klárar til afhendingar á þriðjudaginn. Í stórum dráttum tekur um viku að koma skólanum af stað, ef svo má segja. Margir nemendur þurfa að gera breytingar á sínum töflum með kennslustjórum og við þurfum einnig að koma að sumum þeirra breytinga. Það getur verið nokkuð snúið að koma saman stundatöflum fyrir einstaka nemendur.
Benedikt: Ferlið er í stórum dráttum það að nemendur velja sína áfanga og eftir því sem valið er markvissara er þeim mun auðveldara að setja saman stundaskrá. Við horfum fyrst á verklegu deildirnar og púslum saman stundaskrám þar og það má segja að róðurinn léttist mikið þegar verklegu deildirnar eru komnar heim og saman. Síðan snúum við okkur að öðrum deildum og segja má að við röðum stórum hluta bóknámsins á tiltölulega stuttum tíma.
Garðar: Við styðjumst að sjálfsögðu við tölvuforrit í þessari vinnu en hátt í helmingi töflunnar er handraðað. Við höfum svo sem aldrei tekið það saman hversu langan tíma þessi vinna tekur en það eru ekki fjarri því að vera tíu dagar.
Benedikt: Við vinnum þetta með Sigríði Huld aðstoðarskólameistara. Hún sér um kennsluskiptinguna en við tveir setjum síðan stundatöflurnar saman. Það er margs að gæta í þessu sambandi. Nefna má stærð hópa og síðan þarf að koma þeim fyrir í stofunum, sem eru misjafnlega stórar. Frameftir janúar má búast við að verið sé að skipta á stofum í einstaka áföngum og slípa skólastarfið á ýmsan hátt.
Garðar: Það eru nálægt 1100 nemendur í dagskóla núna á vorönn, þar af eru rösklega 130 nýnemar. Það hefja alltaf færri nemendur nám á vorönn en haustönn, sem kemur m.a. til af því að á haustönn hættir alltaf hópur námi og hann var óvenju stór sl. haust, eins og reyndin var í mörgum öðrum framhaldsskólum. Og síðan var útskriftarhópurinn í desember stór eða um 120 nemendur. Úr þessum útskriftarhópi koma óvenju margir til með að stunda hér áfram nám á vorönn, þessir nemendur eru að byggja ofan á það sem þeir eru þegar búnir að ljúka með einum eða öðrum hætti.
Benedikt: Atvinnuástand og stærð árganga eru líka afgerandi þættir í fjölda framhaldsskólanema á hverjum tíma.
Garðar: Auk þess að starfa sem áfangastjórar kennum við Benedikt saman tvo áfanga í efnafræði. Það er gott að stíga upp úr þessum stól og skipta aðeins um umhverfi annað slagið, fara út í stofurnar og kenna og finna púlsinn í skólastarfinu.
Benedikt: Það er líka gott að kenna aðeins, þó ekki væri annað en til að halda okkur við í okkar fögum.
Garðar: Þetta mun vera 26. árið mitt sem áfangastjóri og þar áður var ég í þessu að hluta bæði á sumrin og í kringum jól. Ég hef verið starfsmaður VMA frá upphafi og náði því að kenna Bensa fyrsta árið sem ég var hérna! Ég hef unnið að stundatöflugerð 52 sinnum og í hvert skipti er þetta ákveðin þraut og púsluspil.
Benedikt: Þetta er sjötta árið mitt sem áfangastjóri en áður var ég kennari við skólann og kennslustjóri í sjö ár. Reynsla mín úr því starfi hefur nýst mér ákaflega vel í starfi áfangastjóra.
Garðar: Ef horft er á þróun VMA í þessi þrjátíu ár þá hefur skólinn stækkað verulega og nemendum fjölgað. Einnig hefur verknámið eflst mjög.
Benedikt: Ein breyting til viðbótar á síðustu árum er sú að nú koma allir grunnskólanemendur í framhaldsskóla, sem ekki var áður. Varðandi Verkmenntaskólann sem slíkan, þá hef ég á tilfinningunni  að ótrúlega margir viti ekki hvað þessi skóli er, fyrir hvað hann stendur og gildi hans fyrir samfélagið.  Þó hygg ég að þeim hafi fjölgað sem þekki eitthvað til þess fjölbreytta starfs sem hér fer fram en engu að síður þyrfti almenn vitneskja fólks um skólann að vera meiri og víðtækari.
Garðar: Og eitt af því sem fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir er að ríflega helmingur nemenda hér er í bóknámi en ekki verknámi.